mán 17. janúar 2022 08:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Einn af mínum bestu vinum og að sjálfsögðu væri það frábært"
Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Varnarmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson hefur verið orðaður við FH síðustu vikur.

Hólmar er 31 árs og hefur verið þrettán ár í atvinnumennsku. Hann hefur verið orðaður við heimkomu. Einnig hefur verið talað um að Valur hafi áhuga á honum.

„Ég á tvö ár eftir af samningi eftir þetta tímabil og ég er ekki alveg 100% á því hver framtíðin verður með það. Ég þarf að setjast niður með Rosenborg eftir tímabilið og skoða þau mál. Staðan er þannig að ég er með tveggja ára samning hérna og maður planar eftir því," sagði Hólmar í viðtali við Fótbolta.net í nóvember.

Er Ísland að kalla á þig núna? „Fjölskyldan er flutt heim, konan fékk góða vinnu og auðvitað vill maður vera með fjölskyldu sinni. Á sama tíma finn ég að ég er ennþá í góðu formi, langar að spila í einhver ár í viðbót. Maður þarf að hugsa þetta vel í hvaða átt maður fer með þetta."

Matthías Vilhjálmsson, leikmaður FH, spilaði með Hólmari í Rosenborg. Þeir eru góðir vinir. Matthías var spurður út í Hólmar eftir leik gegn ÍA í Fótbolta.net mótinu á laugardag.

„Hólmar er bara einn af mínum bestu vinum og að sjálfsögðu væri það frábært, en hann á tveggja ára samning hjá Rosenborg og það verður bara að koma í ljós hvað gerist. Hann er náttúrulega frábær leikmaður og átt frábæran feril. Það kemur bara í ljós," sagði Matthías.

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari FH, var einnig spurður út í Hólmar. „Ég hef bara ekki hugmynd," sagði Sigurbjörn.

Hólmar var á dögunum orðaður við Apollon Limassol á Kýpur. Það er því alls ekki víst að hann komi heim strax.
Matti Villa: Það var freistandi að fara í Vålerenga
Bjössi Hreiðars: Stóð ekkert til að fara neitt annað en FH
Athugasemdir
banner
banner