Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   sun 18. ágúst 2024 18:00
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: ÍBV tók toppsætið af Fjölni
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Síðustu tveimur leikjum dagsins var að ljúka í Lengjudeild karla, þar sem ÍBV tókst að klifra yfir Fjölni í titilbaráttunni.

Lestu um leikinn: ÍBV 2 -  1 Grótta

ÍBV tók á móti fallbaráttuliði Gróttu og tók forystuna snemma leiks þegar Vicente Valor skoraði með skoti úr vítateignum.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í Vestmannaeyjum og tvöfölduðu forystuna fyrir leikhlé. Sverrir Páll Hjaltested skoraði þá gott mark eftir flotta sókn og var staðan 2-0 í leikhlé.

Það var ekki mikið að frétta í fyrri hálfleik en heimamenn voru sterkari aðilinn. Síðari hálfleikurinn var einnig nokkuð bragðdaufur en það voru gestirnir frá Seltjarnarnesi sem settu spennu í leikinn með marki á 67. mínútu. Pétur Theódór Árnason skoraði þá eftir góða fyrirgjöf frá Kristófer Melsted.

Grótta sótti mikið en átti í erfiðleikum með að skapa sér gott færi. Heimamenn fengu betri marktækifæri en boltinn rataði ekki í netið. Lokatölur urðu því 2-1 fyrir ÍBV.

Þetta er gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Eyjamenn, sem klifra uppfyrir Fjölni og fara á topp Lengjudeildarinnar í ljósi þess að Fjölnir gerði jafntefli á Akureyri á sama tíma.

Grótta er áfram á botni deildarinnar, með 13 stig eftir 18 umferðir - fimm stigum frá öruggu sæti.

ÍBV 2 - 1 Grótta
1-0 Vicente Valor ('7)
2-0 Sverrir Páll Hjaltested ('44)
2-1 Pétur Theódór Árnason ('67)

Fjölnismenn eru núna einu stigi á eftir ÍBV í titilbaráttunni eftir að þeir gerðu jafntefli við Þór á Akureyri.

Lestu um leikinn: Þór 1 - 1 Fjölnir

Leikurinn á Akureyri fór rólega af stað en heimamenn tóku forystuna í fyrri hálfleik eftir laglegt mark frá Birki Heimissyni, sem skoraði eftir gott einstaklingsframtak.

Birkir fékk að líta beint rautt spjald sex mínútum síðar fyrir að gefa olnbogaskot og því var staðan 1-0 í hálfleik en Þórsarar voru einum leikmanni færri.

Fjölnir byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og gerði Rafael Máni Þrastarson jöfnunarmark strax í upphafi, þegar hann skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Bjarna Þór Hafstein.

Það ríkti mikið jafnræði í seinni hálfleik þó að heimamenn væru leikmanni færri. Hvorugu liði tókst að gera sigurmark þar sem afar lítið var um marktækifæri.

Lokatölur urðu því 1-1 og dettur Fjölnir niður í annað sæti Lengjudeildarinnar. Þór er áfram í neðri hlutanum, með 19 stig eftir 18 umferðir - sex stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Þór 1 - 1 Fjölnir
1-0 Birkir Heimisson ('37)
1-1 Rafael Máni Þrastarson ('46)
Rautt spjald: Birkir Heimisson, Þór ('43)
Athugasemdir