Villa horfir til Jackson - Chelsea leggur aukna áherslu á Garnacho - Tottenham vill leikmann Mónakó
   mið 20. ágúst 2025 12:19
Elvar Geir Magnússon
Áhorfandi hrækti á dómara í Garðabæ og KSÍ sektar
Frá umræddum leik sem fram fór á Samsungvellinum í Garðabæ.
Frá umræddum leik sem fram fór á Samsungvellinum í Garðabæ.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Þróttur Vogum og stuðningsmenn liðsins hafa sett skemmtilegan lit á íslenskan fótbolta.
Þróttur Vogum og stuðningsmenn liðsins hafa sett skemmtilegan lit á íslenskan fótbolta.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Áhorfandi á leik KFG og Þróttar Vogum í 2. deild karla sem fram fór þann 30. júlí missti algjörlega stjórn á skapi sínu og hrækti á einn af dómurum leiksins þegar þeir voru að ganga af velli.

Umræddur áhorfandi var í stúku Samsungvallarins og jós úr skálum reiði sinnar áður en hann hrækti og lenti hrákan á einum úr dómaratríóinu.

Málið fór á borð aganefndar KSÍ sem sektaði Þrótt Vogum, gestalið leiksins, um 200 þúsund krónur þar sem um stuðningsmann liðsins var að ræða. Þetta kom fram í úrskurði aganefndar í gær þar sem skýringin „Vítaverð framkoma áhorfanda“ stóð í athugasemd við sektina.

KFG, sem er í níunda sæti 2. deildarinnar, vann umræddan leik 4-3. Þróttur Vogum er í öðru sæti.

Með öllu óásættanlegt og andstætt öllu því sem við viljum standa fyrir
Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar Vogum, segir að afstaða félagsins sé alveg skýr og það fordæmi umrætt atvik.

„Þessi hegðun á sér enga stoð í okkar gildum eða því sem félagið stendur fyrir. Það sem gerðist er með öllu óásættanlegt og andstætt öllu því sem við viljum standa fyrir, bæði sem íþróttafélag og samfélag í Vogum. Við viljum jafnframt biðjast afsökunar á þessu atviki, sérstaklega gagnvart dómara leiksins sem varð fyrir þessu óverðskuldaða og óþolandi framferði. Þetta er í fyrsta skipti sem svona gerist, og við munum taka þetta alvarlega innan félagsins," segir Marteinn við Fótbolta.net.

„Ég undirstrika að við hjá Þrótti Vogum viljum sjá hegðun stuningsmanna og annara fulltrúa félagsins sé byggð á virðingu, jákvæðum samskiptum og heilbrigðum stuðningi. Við munum nýta þetta atvik sem áminningu og tækifæri til að efla fræðslu innan félagsins, til að tryggja jákvæða og örugga umgjörð í kringum leiki okkar í framtíðinni."

Ætla að fara með gæsluliða í útileiki
Fram kemur í niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar að aðildarfélög beri ábyrgð á stuðningsmönnum sínum og geta sætt viðurlögum vegna framkomu þeirra Þá er því beint til Þróttar að gera nauðsynlegar ráðstafanir á heimaleikjum sínum, og gagnvart umræddum áhorfanda, til að koma í veg fyrir að slíkt atvik endurtaki sig. Þróttur hyggst ekki áfrýja dómnum.

Hvaða ráðstafanir verða gerðar, og gagnvart umræddum áhorfanda?

„Þar sem framkvæmd heimaleikja félagsins hefur alltaf verið til fyrirmyndar, ákvað stjórn knattspyrnudeildar Þróttar að framvegis fari fjórir gæsluliðar í alla útileiki liðsins, til að sinna gæslu og gæta hagsmuna félagsins. Þessi ákvörðun gildir út tímabilið. Þróttur hefur hafið vinnu við að hafa uppi á viðkomandi. Félagið krefst þess að viðkomandi aðili gefi sig fram," segir Marteinn að lokum.
Athugasemdir
banner