West Ham í viðræðum um Kante - Tottenham hefur áhuga á miðjumanni Man Utd - Fulham vill Andre
   lau 22. júní 2024 10:10
Ívan Guðjón Baldursson
Spalletti: Munurinn á liðunum var líkamlegur
Mynd: EPA
Luciano Spalletti var svekktur eftir tap Ítalíu gegn Spáni í B-riðli Evrópumótsins á fimmtudagskvöldið.

Spánverjar gjörsamlega yfirspiluðu Ítali stærsta hluta leiksins og voru óheppnir að sigra ekki stærra en 1-0.

„Þeir voru miklu ferskari heldur en við, þeir voru úthvíldari. Við vorum ekki með jafn snöggan viðbragðstíma og þeir. Munurinn á liðunum var líkamlegur," sagði Spalletti. „Ég gerði mistök að gefa leikmönnum ekki meiri hvíld á milli fyrstu leikja mótsins.

„Við áttum í gríðarlega miklum erfiðleikum og þeir áttu að skora fleiri mörk heldur en þeir gerðu. Við áttum erfitt með að halda haus og spörkuðum boltanum frá okkur jafnvel þegar engin þörf var á því. Við vorum langt frá því að vera nógu góðir og verðum að bæta okkur fyrir lokaumferðina.

„Markmiðið var að mæta þeim úti á vellinum og spila góðan fótbolta, en það gekk ekki upp. Við neyddumst til að verjast stærsta hluta leiksins og náðum ekki að skapa hættu á lokakaflanum vegna þreytu. Við viljum halda boltanum innan liðsins, sama hvaða andstæðingum við spilum gegn, en það gekk ekki hjá okkur. Við munum ekki breyta um leikstíl útaf þessu.

„Við vorum ekki á réttum stað líkamlega en við munum passa uppá að vera þar fyrir næsta leik."


Ítalía mætir Króatíu í úrslitaleik í lokaumferð riðlakeppninnar, þar sem Ítölum nægir jafntefli til að tryggja sér sæti í útsláttarkeppninni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner