
Íslenska landsliðskonan Hildur Antonsdóttir er að elska nágrannaslagina í Liga F á Spáni en hún var með stoðsending í öðrum Madrídar-slagnum í röð er Madrid CFF gerði 1-1 jafntefli við Atlético í dag.
Í síðustu umferð gaf Hildur stoðsendingu í 2-1 tapi gegn Real Madrid á Alfredi Di Stefano-vellinum og fylgdi hún því vel á eftir með annarri stoðsendingu í dag gegn Atlético.
Hún lagði upp fyrir Allegru Poljak sem kom Madrid yfir snemma í síðari hálfleiknum, en Atlético tókst ekki að svara markinu fyrr en á lokamínútunum.
Hildur byrjaði á bekknum í fyrstu umferðinni, en verið í byrjunarliðinu í síðustu þremur leikjum.
Madrid er í 8. sæti með 5 stig eftir fjórar umferðir.
Ásdís Karen Halldórsdóttir og Guðrún Arnardóttir voru báðar í byrjunarliði Braga sem gerði 1-1 jafntefli við Valadares Gaia í portúgölsku deildinni.
Liðin voru að eigast við í annarri umferð deildarinnar, en stigið var það fyrsta sem Braga sækir á leiktíðinni.
Hafrún Rakel Halldórsdóttir kom inn af bekknum hjá Bröndby sem vann 3-2 sigur á Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni. Hún spilaði síðasta hálftímann er Bröndby sótti annan sigur sinn, en liðið situr í 3. sæti með 9 stig eftir sex leiki.
Athugasemdir