Man Utd reynir við Branthwaite - Slot hefur áhuga á Watkins - Sesko efstur á blaði Arsenal
   þri 23. febrúar 2021 14:50
Þórir Hákonarson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Breytum rétt - Deildaskipan
Þórir Hákonarson
Þórir Hákonarson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Hulda Margrét
Mikið hefur verið rætt en minna ritað um hugmyndir varðandi fyrirkomulag deildakeppni í efstu deildum karla og þær hugmyndir sem komið hafa fram hafa lítið sem ekkert verið útfærðar.

Starfshópur hefur komið með þá tillögu að tvískipta Íslandsmótinu en stór hluti þeirra sem voru í nefndinni voru samt á annarri skoðun, töldu það bara ekki eiga hljómgrunn og því var „næst besti“ kosturinn valinn þó svo að það væri ekki í samræmi við vilja þeirra sem að stóðu. Það eitt er vissulega athyglisvert og ekki nokkur leið að átta sig á því hvernig hópurinn gat komist að niðurstöðu um það að besti kosturinn að þeirra mati yrði aldrei samþykktur af öðrum og því væri rétt að benda bara á annan kost.

En gott og vel, við verðum að finna einhverjar lausnir og reyna að sættast á þær.

Snýst þetta um peninga? Ef svo er þá er rétt að ná sáttum með því að „stóru“ félögin séu tilbúin til þess að gefa eitthvað eftir til félaga í neðri deild og þá með þeim formerkjum að við sameinumst um að það sé okkur öllum, öllum félögum til góða að íslenskum félögum gangi vel í Evrópukeppninni, enda liggur það fyrir og þarf ekki að ræða. Eru bestu félögin til í að taka þátt í því að 20-25 félög í deildakeppni fái hlutdeild í fjármunum ef þessi félög öll taka þátt í því að auka möguleika þeirra með breyttri skipan deilda að þau nái a.m.k. betri árangri heldur en undanfarin ár.

Reynum að ná sáttum og komum með hugmyndir. Ég er á því að það eigi að fækka liðum í efstu deild karla, hafa liðin 10 (þreföld umferð) og halda 12 liða deild þar fyrir neðan (tvöföld umferð). Það eiga engin lið, hvort sem þau eru á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu, „rétt á því“ að vera í efstu deild. Þangað ferðu ef þú átt það skilið og það breytir því ekkert að það eru 5-6 lið á Íslandi betur en öll önnur til lengri tíma. Liðin fá m.a. fjármuni í gegnum okkar sameiginlegu samstök, KSÍ og UEFA, auk þess að fá greiðslur fyrir árangur og sölu réttinda.

Sátt sem ég legg til er að fækka liðum í efstu deild karla, taka saman höndum um að koma okkur upp fyrir neðsta level í evrópskri knattspyrnu, búa til betri lið, búa til samkeppnishæfari lið, fá meiri fjármuni inn í íslenskan fótbolta og láta sem flest félög njóta. Einfalt mál að láta alla „græða“, fækkum liðum í efstu deild, fastar greiðslur, greiðslur vegna barna – og unglingastarfs og greiðslur vegna árangurs í Evrópukeppni, settar í einn pott, félög í Evrópukeppni að sjálfsögðu njóta árangurs en gefa eftir t.d. 5% af þeim fjármunum eða 2%, samkomulagsatriði. Aðrir fjármunir, nýir sjónvarpssamningar, fjármunir KSÍ í barna – og unglingastarf o.fl. slíkt, skipt kannski 75/25 eða 80/20 á milli liða í efstu deild og næst efstu deild?

Með fækkun liða í efstu deild miðað við núverandi aðstæður myndu fastar greiðslur hækka um ca 6 milljónir króna og miðað við núverandi aðstæður í Lengjudeild myndi fast framlag hækka úr þessum 2,5 milljónum sem félögin fá vegna barna – og unglingastarfs í deildinni í kannski fastar greiðslur í ríflega 6 milljónir króna. Það má alveg hugsa sér aðra nálgun á skiptingu fjármuna en aðalatriðið væri að allir fjármunir vegna réttinda, greiðslur vegna barna – og unglingastarfs og hluti vegna þátttöku liða í Evrópukeppnum færi í einn pott 22 liða sem skiptu svo á milli sín með sanngjörnum hætti þannig að sem flest lið njóti góðs af á hverju ári.

Með góðum samningum um réttindi deildanna er hægt að gera mun betur og það á að vera okkar markmið, ekki að rífast um einhverja minnimáttakennd félaga, samsæriskenningar um efstu deildar félög og landbyggðaréttindi sem engin eru, lið kemst í efstu deild ef það er nógu gott til þess en lið hafa engin sérstök réttindi til þess og 14-16 liða deild er bara of mikið. Takið bara stafrófið í efstu deildum í Evrópu, Króatía er flott fótboltaland, það eru 10 lið í efstu deild þar, það eru 12 lið í Austurríki og það eru 8 lið í Azerbaijdan, allt eru þetta deildir sem eiga félagslið sem eru langt fyrir ofan okkur.

Hugmyndir um tvískipta deild eftir hefðbundna deildakeppni er þekkt, gefst misjafnlega og illa í sumum tilfellum með sífelldum breytingum, við þurfum ekki á því að halda. Við þurfum festu og skipulagða uppbyggingu íslenskrar knattspyrnu félagsliða, það eru einungis Andorra, Eistland og San Marinó fyrir neðan okkur í augnablikinu.

Sameinumst um að breyta þeirri stöðu.

Höfundur er:
Þórir Hákonarson
Áhugamaður um íslenska knattspyrnu

Athugasemdir
banner
banner