Viðræður Liverpool og Bayer Leverkusen um Florian Wirtz eru hafnar og vonast félögin til að þær gangi hratt og vel fyrir sig. Sky í Þýskalandi greinir frá.
Áreiðanlegustu blaðamenn fótboltans greindu frá því í gær að Wirtz væri búinn að tjá Bayern München að hann hafi gefið Liverpool munnlegt samþykki um að ganga í raðir enska félagsins.
Wirtz átti góðan fund með stjórn Liverpool og Arne Slot, stjóra félagsins, á dögunum.
Liverpool hefur verið í sambandi við Leverkusen síðasta sólarhringinn og segir Florian Plettenberg hjá Sky að félögin vilji ganga frá samkomulagi sem fyrst.
Samkvæmt helstu miðlum mun Wirtz kosta í kringum 120 milljónir punda, en það er ekki útilokað að Leverkusen fái leikmann upp í kaupverðið.
Leverkusen er í leit að markverði, miðverði, miðjumanni og auðvitað leikmanni í stað Wirtz.
Liverpool er sagt opið fyrir tilboðum í nokkra leikmenn í þessum stöðum en helst má nefna Caoimhin Kelleher, Joe Gomez, Harvey Elliott, Diogo Jota og Darwin Nunez sem eru allir að íhuga stöðu sína hjá enska félaginu.
Athugasemdir