
„Bara æðisleg, svakalegur baráttusigur, við börðumst svakalega fyrir þessu. Byrjuðum leikinn svona ágætlega en fengum svo þetta mark í andlitið. Komum svo sterkar upp úr því og skoruðum tvö mörk, komum inn í hálfleik og ákváðum að klára leikinn almennilega", sagði Birna Kristín Björnsdóttir eftir glæsilegan sigur FH kvenna í kvöld gegn toppliði Breiðabliks.
Lestu um leikinn: FH 2 - 1 Breiðablik
Þegar líða fór á seinni hálfleik þróaðist leikurinn þannig að Breiðablik sótti af miklum þunga en FH varðist mjög vel og beitti skyndisóknum. Mikill dugnaður var í fremstu línu FH sem gaf allt í leikinn.
„Maya upp á topp alveg svakalega dugleg, hljóp og hljóp sem og allar stelpurnar fram á við. Við gerðum okkar allra besta og þetta voru svakalega erfiðar lokamínútur en við stóðum þetta alveg af okkur.
Birna Kristín var nýlega valin í fyrsta skipti í U23 landslið Íslands og spilar þar með Örnu Eiríksdóttur fyrirliða FH.
Aldís Guðlaugsdóttir var einnig valin í liðið en þurfti að draga sig úr hópnum eftir meiðsli eins og kunnugt er.
„Frábært að vera valin í þennan hóp með þessum geggjuðu stelpum og spennt fyrir þessu verkefni. Það er alveg hræðilegt að missa Aldísi sem er mikilvægasti leikmaðurinn okkar ef ég má segja það."
Athugasemdir