
Bjarni Jóhannsson þjálfari Selfoss var svekktur með úrslit kvöldsins eftir að liðið hans tapaði 2-0 fyrir ÍR.
Lestu um leikinn: ÍR 2 - 0 Selfoss
„Við vissum að þeir myndu koma á okkur. Eigum tvö dauðafæri hérna í fyrri hálfleik, sem er mjög vont að nýta ekki á móti liði eins og ÍR, og fá þá framar á völlinn. Þá hefði leikurinn náttúrulega orðið öðruvísi. Þeir eru náttúrulega djöfull öflugir í hornum og slíku og við vörðumst þessu ágætlega. Svo tróðu þeir náttúrulega einu marki þarna inn. Við reyndum, en það bara tókst ekki," sagði Bjarni.
Selfoss hefur nú tapað þremur leikjum í röð, og fjórum ef bikarinn er tekið með. Skiljanlega þá finnst Bjarna ekki skemmtilegt að tapa.
„Við unnum náttúrulega fyrsta leikinn, og erum núna búnir að tapa þremur leikjum í röð. Auðvitað er það vont. Það er verra að tapa leikjum en vinna þá. Við verðum bara að þétta okkur, og mæta í næsta leik, bara áfram gakk," sagði Bjarni.
Selfoss eru nýliðar í deildinni og hafa núna fengið að máta sig gegn nokkrum Lengjudeildar liðum. Bjarni segir að þetta muni vera erfitt.
„Það er mikill getumunur á 2. deild og Lengjudeild. Það vissum við, þannig við vitum alveg að það verður á brattan að sækja fyrir okkur. Það er bara að halda áfram og við sáum það í dag. Við héldum áfram alveg út leikinn og vorum ekkert að gefa neitt eftir. Það eru styrkleikamerki," sagði Bjarni
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.