
Jóhann Birnir Guðmundsson þjálfari ÍR var ánægður með úrslit kvöldsins eftir sigur á Selfoss 2-0.
Lestu um leikinn: ÍR 2 - 0 Selfoss
„Við erum bara mjög ánægðir með sigurinn. Mér fannst við hafa yfirhöndina mest allan leikinn, en þeir voru mjög skeinuhættir og erfitt að opna þá. Þeir voru erfiðir í dag, en ég held þetta hafi verið heilt yfir mjög sanngjarn sigur," sagði Jóhann.
ÍR hafa skorað fjögur mörk úr hornum í sumar, í aðeins fjórum leikjum. Alveg greinilega mikill styrkleiki hjá liðinu.
„Við erum ekkert að leggja neitt sérstaklega upp með þetta, en við erum bara með öfluga menn í boxinu. Þannig það hentar okkur ágætlega, en við erum ekkert að leggja sérstaklega upp úr því að skora úr hornum. Eins og með leikinn í dag, þá var mikið af föstum leikatriðum og innköstum. Þetta er hluti af leiknum og við reynum að skora úr þessu eins og öðru," sagði Jóhann.
Varnarleikur ÍR hefur verið góður hingað til á tímabilinu. Þeir hafa aðeins fengið tvö mörk á sig, og héldu hreinu í dag.
„Grunnurinn að góðu liði er að geta spilað almennilegan varnarleik. Við erum að gera það vel eins og er, en sumarið er bara rétt að byrja."
Bergvin Fannar Helgason kemur inná á 65. mínútu leiksins og skorar bara einhverjum sekúndum eftir það. Það verður að teljast góð skipting hjá þjálfaranum.
„Ég talaði við Davíð um þetta, þannig ég gef honum líka heiðurinn af þessu. Við erum náttúrulega bara með öfluga stráka á bekknum, og mjög skemmtilega breidd í liðinu. Það er mjög gott að geta sett Bergvin og Hákon inná sem dæmi. Bara frábært að sjá Bergvin koma inná og skora," sagði Jóhann.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.