Ruben Amorim verður áfram stjóri Manchester United á næsta tímabili en hann á að hafa tjáð leikmannahópnum þær fréttir á æfingasvæðinu í dag.
Amorim tók við United í nóvember stuttu eftir að Erik ten Hag var rekinn.
Portúgalinn kom United allla leið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar en árangur liðsins í deildinni var sá versti í sögu félagsins.
Á miðvikudag tapaði United úrslitaleiknum gegn Tottenham og fóru enskir miðlar að velta fyrir sér framtíð Portúgalans, en hún virðist örugg í bili.
David Ornstein hjá Athletic segir frá því að Amorim hafi tjáð leikmönnum sínum í dag að hann verði áfram stjóri liðsins á næsta tímabili.
Á hann einnig að hafa tjáð argentínska vængmanninum Alejandro Garnacho að hann væri ekki í myndinni hjá honum og gæti fundið sér nýtt félag í sumar.
Garnacho var ekki í byrjunarliðinu gegn Tottenham og lýsti hann greinilega vonbrigðum sínum með það. Bróðir hans talaði um á Instagram að Amorim hafi hent honum fyrir rútuna á blaðamannafundi eftir leikinn.
Áframhaldandi samstarf virtist útilokað og er nú ljóst að því verður slitið í sumarglugganum.
Leikmaðurinn skoðaði það að fara frá United í janúar og var orðaður við Chelsea og Napoli en ekkert varð af skiptunum.
Athugasemdir