Man Utd ætlar að hreinsa til í leikmannahópnum - Vardy orðaður við Valencia
banner
   fös 23. maí 2025 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Skandall í Serie B: Brescia dæmt niður um deild?
Sampdoria fær tækifæri til að bjarga sér
Birkir rennur út á samningi hjá Brescia í sumar.
Birkir rennur út á samningi hjá Brescia í sumar.
Mynd: MD Management
Það er mikil dramatík í Serie B deild ítalska boltans þessa dagana eftir að fjögur stig voru dæmd af Brescia. Það ríkir þó enn óvissa um framtíðina þar sem Brescia hefur áfrýjað dómnum.

Brescia var í harðri fallbaráttu í Serie B og endaði á að forðast fall úr deildinni afar naumlega með sigri í lokaumferðinni.

Degi síðar var tilkynnt um brot Brescia á fjármálareglum deildarinnar og var félaginu refsað með stigafrádrætti.

Birkir Bjarnason, sem á 37 ára afmæli eftir helgi, kom að 5 mörkum í 27 deildarleikjum með Brescia á tímabilinu.

Vanalega tekur frádrátturinn gildi á næstu leiktíð, en í þetta sinn virðast ítölsk fótboltayfirvöld vera staðráðin í því að hafa refsinguna afturvirka.

Brescia byrjar því ekki næsta tímabil með -4 stig í Serie B, heldur verða stigin dregin af lokastigunum frá nýliðnu deildartímabili sem mun fella félagið niður í Serie C.

Þetta þýðir að föllnu risarnir í Sampdoria geta enn bjargað sér frá falli. Þeir klifra upp um eitt sæti á stöðutöflunni útaf refsingunni og fá að spila úrslitaleik við Salernitana um síðasta lausa sætið í Serie B.

Samp virtist vera fallið eftir jafntefli í lokaumferðinni en ákvörðun fótboltayfirvalda á Ítalíu gæti endað á að bjarga þessu sögufræga félagi frá falli.

Samp er afar óvænt í fallsæti í ótrúlega jafnri Serie B deild, þar sem aðeins níu stig eru á milli umspilssætis um sæti í Serie A og fallsætis niður í Serie C.
Athugasemdir
banner
banner
banner