banner
   sun 25. október 2020 17:32
Ívan Guðjón Baldursson
Heiðar Birnir tekinn við Vestra (Staðfest) - Markmiðið að gera gott betra
Lengjudeildin
Mynd: Vestri
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Heiðar Birnir Torleifsson hefur verið ráðinn sem þjálfari meistaraflokks karla hjá Vestra. Hann tekur við störfum að tímabili loknu þegar samningur Bjarna Jóhannssonar rennur út.

Heiðar Birnir er uppalinn Ísfirðingur og þekkir liðið eftir að hafa starfað sem aðstoðarmaður Bjarna Jó.

„Stjórn knattspyrnudeildar bindur miklar vonir við ráðninguna á Heiðari, enda gríðarlega metnaðarfullur þjálfari með miklar skoðanir á leiknum og hungraður að ná í árangur," segir á vefsíðu Vestra.

„Enn stendur yfir leit að aðstoðarmanni Heiðars, en Fannar Karvel og Sparta munu halda áfram að sjá um styrktar- og þolæfingar liðsins."

Heiðar Birnir gaf viðtal sem Vestri hefur birt á YouTube og má sjá hér fyrir neðan.

„Ég er fæddur og uppalinn Ísfirðingur og hóf minn þjálfaraferil hér á sínum tíma. Ég spilaði hérna líka og reyndar með Bolvíkingum líka," sagði Heiðar.

„Á síðustu 20 árum hef ég komið víða við í þjálfun og þjálfað bæði innanlands og utan.

„Það hefur verið unnið mjög gott starf hérna á síðustu árum þannig að mitt markmið er bara það að gera gott betra."


Vestri er um miðja Lengjudeild með 29 stig eftir 20 umferðir.


Athugasemdir
banner
banner