„Þetta er mikill heiður," segir Guðjón Pétur Lýðsson sem var fyrir stuttu ráðinn þjálfari Hauka.
Ráðningin er athyglisverð þar sem Guðjón Pétur er nýbúinn að spila sinn síðasta leik á ferlinum og hefur aldrei þjálfað áður. Hann er Haukamaður mikill og hlakkar til að takast á við verkefnið.
Ráðningin er athyglisverð þar sem Guðjón Pétur er nýbúinn að spila sinn síðasta leik á ferlinum og hefur aldrei þjálfað áður. Hann er Haukamaður mikill og hlakkar til að takast á við verkefnið.
„Þetta var kannski ekki alveg planið en þegar Jeffsy ákvað að stíga til hliðar eftir tímabilið þá lét ég vita að ég hefði áhuga á að koma í einhvers konar starf; hvort sem það væri í stjórn, sem yfirmaður fótboltamála eða bara í einhvers konar vinnu fyrir félagið. Þannig opnaðist þetta fyrst og seinna var mér boðið á fund. Eftir því sem maður skoðaði þetta meira og ræddi við gamla þjálfara þá varð maður spenntur fyrir þessu. Á endanum varð þetta að veruleika," segir Guðjón Pétur við Fótbolta.net.
„Ég veit ekki hvort þetta hafi komið mér á óvart. Ég hef átt flottan feril og hef verið með marga góða mannauðsstjóra í fótboltanum í gegnum tíðina. Maður hefur sankað að sér góðri reynslu úr því. Ég hef líka sömuleiðis verið með mannaforða í fyrirtækjarekstri og í öðrum hlutum sem maður hefur gert í lífinu. Það er margt sem stuðlar að því að maður hefur eitthvað í þetta að gera, en það kemur svo í ljós."
Í takt við minn persónuleika
Guðjón Pétur segir að hann hafi alltaf vitað það að hann myndi prófa að þjálfa einn daginn.
„Ég hef alltaf vitað það að ég myndi allavega prófa að þjálfa. Ég hef haft miklar skoðanir og verið mjög djúpur í því að pæla í taktík, leikstíl liða og mannlega þættinum í þjálfun. Ég hef held ég undirbúið mig fyrir þetta í langan tíma," segir Guðjón Pétur en hvernig þjálfari ætlar hann að vera?
„Ég er með hugmyndir um það hvernig ég vil spila en ég veit líka að þetta er fyrsta þjálfaragiggið mitt og er ekki með allt á hreinu. Ég mun lenda á veggjum og læra en ég ætla að reyna að vera snöggur að því. Ég er sem betur fer með gott fólk sem ég get leitað til. Ég ætla að vera duglegur að þróa minn stíl jafnt og þétt."
„Ég vil fyrst og fremst að fólk sjái jákvætt og gott hugarfar, lið sem er hugrakkt. Það er fátt sem mér finnst meira pirrandi en að horfa á lið sem eru rög við að keyra á leikina. Að vera sókndjarfur og agressívur er í takt við minn persónuleika. Það verður spilaður leiftrandi sóknarbolti en á sama tíma þarf líka að vera sterkur varnarleikur. Við munum spila agressívt," segir Guðjón Pétur.
Hef verið að skipta mér af þessum strákum
Guðjón Pétur hefur undanfarin tvö tímabil spilað með Haukum en núna fer hann beint í að þjálfa liðið. Er það ekkert skrítið?
„Nei, það er það ekki. Ég hef alltaf talað hreint út og ég held að strákarnir í liðinu hafi vitað mínar skoðanir áður en þetta kom til. Ef þú ert hreinn og beinn, talar alltaf hreint út um hlutina, þá vita allir sína stöðu og hvað mér finnst. Ég hef verið duglegur að tjá mig innan hópsins og hvernig ég sé hlutina. Ég hef verið að skipta mér af þessum strákum allan tímann sem ég hef verið hérna sem leikmaður. Ég er ekki á þeirra aldri og hef verið mikið að leiðbeina þeim. Þetta verður ekkert brjáluð breyting fyrir þá," segir Guðjón Pétur.
Enn er ekki búið að tilkynna hver verður aðstoðarþjálfari eða hvernig teymi hans verður skipað.
„Það er langt komið með þjálfarateymið en það er ekki alveg komið á þann stað að það er hægt að tilkynna það. Það er stutt í að það gerist," segir þjálfarinn.
Allt annað er ekki ásættanlegt
Undanfarið hafa Haukar tilkynnt að nýir samningar hafi verið gerðir við leikmenn og svo gekk Ólafur Darri Sigurjónsson aftur til liðs við félagið. Hann var bestur og efnilegastur í 3. deild í sumar.
„Ég býst alls ekki við því að það verði miklar breytingar. Við erum með góðan kjarna af leikmönnum sem eiga mikið inni. Það eru að koma jákvæðar fréttir af leikmannamálum. Við ætlum klárlega að styrkja okkur en það verður ekki gert í of miklu magni. Við ætlum að fá inn gæðamikla leikmenn."
Haukar hafa verið í mörg ár í 2. deild en það er ekki ásættanlegt fyrir félagið.
„Þetta er félag sem á að lágmarki heima í Lengjudeild og ætti jafnvel að vera að keppa um það að fara upp í efstu deild á næstu árum. Aðstaðan er frábær og það er margt sem segir að félagið eigi ekki að vera í 2. deild. Það er minn hugur að koma þessu liði upp um deild og það er líka hugur leikmanna og stjórnarmanna. Stefnan er að fara upp um deild og allt annað er ekki ásættanlegt," segir Guðjón Pétur.
Hlaupaskór í staðinn
Núna eru skórnir upp á hillu eftir glæsilegan feril. Er það erfið tilhugsun?
„Nei, nei. Ég klæði mig bara í hlaupaskó í staðinn," segir Guðjón Pétur léttur. „Það verður alveg smá breyting að vera hættur í fótbolta en ég er enn inn í þessum heimi. Ég fæ að miðla reynslu minni og hjálpa leikmönnum að byggja sig upp. Á endanum eru það leikmennirnir sem þurfa að skila frammistöðu. Ég ætla að reyna að vera eins öflugur og ég get við að aðstoða þá. Ég er tilbúinn að leggja mjög mikið á mig svo þeir bæti sig. Á endanum er það mælikvarðinn á hvernig mér gengur, það hversu vel strákarnir taka í það sem ég segi og að þeir bæti sig."
„Mér fannst ég geta hjálpað félaginu meira utan vallar en innan vallar; ef ég er alveg heiðarlegur. Það er fullt af góðum strákum í þessu liði og við erum að fara að fá einhverja styrkingu. Ég hef bullandi trú á þessum hóp. Um mitt mót vorum við í kringum annað sætið og misstum mjög frambærilega leikmenn sem fóru út í skóla, strákar sem eru ekki að fara út í skóla á næsta ári. Ég bind miklar væntingar til þeirra. Lykilmennirnir sem hafa framlengt eru það góðir að þeir gætu verið að spila á hærra stigi en ég er þakklátur þeim að hafa treyst á mig og verkefnið sem við erum að fara í. Við ætlum að reyna að gefa aðeins í."
Glæsilegur ferill
Á sínum leikmannaferli vann Gaui tvennuna í Svíþjóð sem leikmaður Helsingborg og vann tvo Íslandsmeistaratitla og einn bikartitil með Val. Alls skoraði hann 105 mörk í 520 KSÍ leikjum.
„Þetta er búið að vera upp og niður, eins og fótboltinn er. Að langmestu leyti hefur þetta verið frábær vegferð og mjög skemmtilegur ferill. Ég hef fengið að upplifa meira en margir. Ég er mjög heppinn að hafa spilað fyrir mörg lið, fengið marga flotta þjálfara og kynnst fólki út um allt. Það eru mestu verðmætin sem maður tekur út úr ferlinum, allt fólkið sem maður hefur umgengist og tengst. Það er það sem situr eftir, allt sem er í kringum þetta og vinskapurinn sem myndast. Ég er auðvitað ótrúlega þakklátur fyrir árangurinn sem hefur komið með líka, stoltur af því."
Einhverjir hápunktar sem þú horfir til?
„Það eru nokkrir hápunktar. Ótrúlega flottur tími upphaflega í Haukum þegar við förum upp í efstu deild. Sömuleiðis að fara til Svíþjóðar og vinna deild og bikar. Næst á eftir var skemmtilegt Evrópuævintýri með Breiðabliki og svo aftur í Val þar sem ég vann tvo Íslandsmeistaratitla og bikarinn líka. Evrópuævintýrin voru ótrúlega skemmtileg og þau sitja eftir. Mér þykir líka ótrúlega vænt um tímann í Eyjum, mjög skemmtilegt verkefni. ÍBV hefur engan húmor fyrir því að vera í 1. deild og Eyjamenn eru geggjaðir. Ég vildi óska þess að ég hefði getað farið upp með Haukum núna en það vonandi tekst bara sem þjálfari," sagði Guðjón Pétur og bætti svo við að lokum:
„Þetta er búið að vera löng vegferð og fullt af mótlæti, en ég kýs yfir höfuð að horfa á það sem ég hef stjórn á. Auðvitað er ég ótrúlega stoltur að hafa náð að spila einhverja 500 leiki í meistaraflokki og öllum árangrinum sem hefur komið þrátt fyrir að hafa átt að hætta í fótbolta miðað við læknisráð. Ég er gífurlega þakklátur að hafa náð að spila fótbolta svona lengi. Fótbolti er ekki bara einhver afþreying, heldur er þetta partur af lífinu mínu. Það er eftirsjá af því að spila en það sýnir hversu miklu máli fótbolti skiptir fyrir mig að ég hoppi beint í þetta."
Athugasemdir