Senegalski framherjinn Nicolas Jackson var staddur í München á leið í læknisskoðun hjá Þýskalandsmeisturum FC Bayern þegar Liam Delap, samherji hans hjá Chelsea, meiddist í sigri liðsins gegn Fulham í gær.
Enzo Maresca þjálfari Chelsea fundaði með stjórnendum eftir leik og var tekin ákvörðun um að hætta við að senda Jackson á lánssamningi til Bayern, sem var búið að samþykkja að greiða 15 milljónir evra til að fá framherjann á láni.
Max Eberl, yfirmaður fótboltamála hjá Bayern, var ekki sérlega hress með þessa ákvörðun Chelsea. Hann viðurkenndi þó að félögin væru ekki búin að skrifa undir neina pappíra og því ekkert hægt í stöðunni nema að senda Jackson aftur heim til London.
30.08.2025 22:09
Eberl: Þurfum að senda strákinn aftur til London
Slúðurmiðillinn The Sun hélt því fram að Jackson væri fokreiður yfir þessari ákvörðun Chelsea og hefði neitað að snúa aftur til félagsins. Það virðist þó ekki vera satt ef marka má orð Diomansy Kamara, umboðsmanns Jackson.
„Auðvitað er þetta erfitt..." skrifaði Kamara á samfélagsmiðlum.
„Þetta á að vera erfitt. Ef það væri auðvelt, þá myndu allir gera þetta.
„Erfiðleikinn er það sem gerir þetta svona frábært."
Athugasemdir