
„Er ósáttur að vinna ekki. Vorum komnir með góða stöðu með vind í bakið. Það var klaufalegt að fá þetta mark á okkur en við tökum öllum stigum í þessari baráttu sem við erum í," sagði Árni Freyr Guðnason, þjálfari ÍR, eftir jafntefli gegn Þór í dag.
Lestu um leikinn: Þór 1 - 1 ÍR
„Við fengum nokkur góð færi og þeir reyndar líka í fyrri hálfleiknum. Það var erfitt að spila í þessum mikla vind og völlurinn mjög harður. Af því að við vorum komnir yfir og hefðum getað lokað leiknum en gerðum það ekki og því fór sem fór."
ÍR er nýliði í deildinni eftir að hafa endað í 2. sæti í 2. deild síðasta sumar en liðið er í umspilssæti þegar tvær umferðir eru eftir.
„Við vorum með það markmið að falla ekki og ef þú nærð að falla ekki þá er stutt í umspilið. Miðað við hvernig þetta hefur verið að spilast settum við fókusinn að reyna ná því. VIð höfum verið í umspilssæti í 5-7 umferðir, við þurfum bara að halda áfram að sækja stigin," sagði Árni Freyr.
Þór er eitt af fáum liðum sem ÍR tókst ekki að vinna en báðir leikirnir enduðu með 1-1 jafntefli.
„Þórsaranir eru með mjög gott lið. Þeir eru á þeim stað sem enginn spáði fyrir, hafa lent í smá krísu en þeir klára þetta. Stundum áttu ákveðin 'bogey' lið og þetta eru okkar lið í sumar," sagði Árni Freyr.