,,Ég vil byrja á að óska Selfyssingum til hamingju með sigurinn og sumarið, þeir eru vel að þessu komnir," sagði Guðjón Þórðarson þjálfari BÍ/Bolungarvíkur í viðtali við Fótbolta.net eftir 4-3 tap gegn Selfyssingum í dag.
Lestu um leikinn: Selfoss 4 - 3 BÍ/Bolungarvík
Guðjón fékk ekki að svara spurningunum lengi óáreittur því geitungur truflaði hann í viðtalinu.
,,Er þessi geitungur á þínum vegum?" sagði Guðjón í léttum tón áður en gera þurfti hlé á viðtalinu. Hann gat síðan haldið áfram að svara spurningum eftir að geitungurinn dró sig í hlé.
,,Við buðum of hátt heim. Við buðum þeim of auðveldlega inn í teig og þeir skoruðu þessi mörk sín og tóku forystuna. Ég hélt að þegar við komumst í 3-2 myndum við láta finna fyrir okkur og eiga kannski möguleika á fjórða markinu en það gerðist ekki og því fór sem fór."
BÍ/Bolungarvík er eftir leikinn með 31 stig í fimmta sætinu og ljóst er að liðið mun ekki fara upp í ár.
,,Það var ekki sett nein áhersla á það að reyna að fara upp. Það var reynt að gera eins vel í hverjum leik og hægt er. Það sem hefur reynst okkur mjög erfitt er að það hefur kvarnast úr liðinu. Frá því að við byrjuðum í maí eru sjö leikmenn farnir og hættir. Það er of mikið fyrir jafnlítinn hóp. Ef við hefðum haldið því eða fengið menn í staðinn hefðum við hugsanlega getað styrkt baráttuna og verið öflugri á ákveðnum tímum."
,,Bikarinn tók toll í deildarbaráttunni en hann var skemmtilegur, við fórum í undanúrslit og það var ánægjulegt að taka þátt í því. Það kostaði svita og tár í deildinni og við vorum þreyttir í 2-3 leikjum sem hefðu kannski getað fallið með öðrum hætti. Þegar við skoðum árið þá verðum við að vera stoltir af því sem við erum búnir að gera. Liðið er á köflum búið að standa sig feyknarlega vel og strákarnir sem eru núna að klára mótið eiga heiður skilinn fyrir framgöngu sína í sumar."
Guðjón segir að stuningurinn við Bí/Bolungarvík sé mikill en þó megi bæta í hann.
,,Það er mikill stuðningur. Það verður að vera samt meira ef duga skal því að þessi barátta er út um allt land. Það eru öll bæjarfélög í landinu að reyna að skreyta sig með góðum liðum. Selfoss er að gera það, þeir eru að standa vel að sínum málum. Þeir eru með frábæra aðstöðu og það er að skila sér. Þeir eru að koma aftur upp í efstu deild eftir eins árs dvöl og það er engin tilviljun. Það er vel staðið að málum hérna og menn eru að gera góða hluti. Það þarf að taka til fyrir vestan og bæta þá vinnu sem er fyrir aftan liðið og hlúa betur að ef að vel á að fara til framtíðar."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
























