Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 09. september 2011 10:00
Hafliði Breiðfjörð
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Roy Keane er ekki maðurinn fyrir Ísland
Hafliði Breiðfjörð
Hafliði Breiðfjörð
Roy Keane er alltof dýr fyrir íslenska landsliðið.
Roy Keane er alltof dýr fyrir íslenska landsliðið.
Mynd: Getty Images
Eggert Magnússon heiðursforseti KSÍ og Geir Þorsteinsson formaður sambandsins leita að eftirmanni Ólafs Jóhannessonar.
Eggert Magnússon heiðursforseti KSÍ og Geir Þorsteinsson formaður sambandsins leita að eftirmanni Ólafs Jóhannessonar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég er ekki að kenna honum að smíða og því á hann ekki að kenna mér að spila fótbolta," er setning sem stundum hefur verið kennd við leikmann úr íslenska landsliðinu um núverandi þjálfara. Nú þurfum við þjálfara sem engin leikmaður vogaði sér að tala svona um. Mann sem allir sem spila fyrir hönd þjóðarinnar bera ómælda virðingu fyrir.

Leikritið í Leifsstöð
Roy Keane hefur verið orðaður við starfið og hafði bókað flug hingað til lands fyrr í vikunni til að sjá landsleik Íslands og Kýpur en mætti svo að lokum ekki. Heldur var Eggert Magnússon óvænt mættur með fluginu frá London og baðaði sig í athygli fjölmiðla í Leifsstöð. Þessi fyrrverandi formaður sambandsins var allt í einu farinn að svara fyrir væntanlega ráðningu KSÍ á þjálfara. Hvaða leikrit var eiginlega þarna í gangi?

Eggert hefur farið sér hægt undanfarin ár síðan hann hætti hjá West Ham en kemur nú sem stormsveipur inn í umræðuna um ráðningu þjálfara. Nú er hann orðinn maðurinn sem aðstoðar KSÍ við málið, enda heiðursforseti sambandsins.

Kosturinn sem hann býður upp á er Roy Keane, fertugur Íri sem fær mismunandi dóma hjá íslenskum fótboltaáhugamönnum og virðist sem það velti í raun á hvort menn haldi með Manchester United eða ekki hvað þeim finnst um hann.

Keane hefur víst sýnt árangur
Það er eitthvað rosalega töff við það að ímynda sér að Roy Keane væri landsliðsþjálfari Íslands. Ímynda sér hann á hliðarlínunni í bláu Errea úlpunni öskrandi Aron Einar, Eið Smára og hina íslensku leikmennina áfram. En gæti það gengið upp? Varla...

Það er misskilningur hjá sumum að Keane hafi ekkert gert sem þjálfari því að á hans fyrsta ári með Sunderland tók hann við liðinu í botnsæti Championship deildarinnar en endaði mótið á toppnum. Árið eftir náði liðið undir hans stjórn að halda sæti sínu. Það er árangur. Vissulega var dýrðin hinsvegar ekki mikil eftir það.

Keane gæti verið fljótur að láta sig hverfa
Það er tvennt sem truflar mig mest í tilhugsuninni að fá Roy Keane í þjálfarastólinn. Annars vegar kostnaðurinn og hinsvegar að Keane gæti verið fljótur að yfirgefa skútuna.

Ísland verður að setja sér stefnu á eitthvað markmið undir stjórn næsta þjálfara. Ráða þarf mann sem ætlar að fylgja liðinu í gegnum það og ég óttast að það kæmi ekki í gegnum Keane.

Hann er mikið nafn í fótboltaheiminum og ljóst að ef hann nær að snúa gengi íslenska liðsins við munu honum bjóðast mörg störf og í raun verður stöðug hætta á að hann stökkvi á eitthvað stærra tækifæri. Keane er Íri og þjálfari Írlands er þegar valtur í sessi. Hvað ef honum byðist sú staða fljótlega eftir að hann tæki við hér?

Alltof dýr fyrir knattspyrnusamband í taprekstri
Enskir fjölmiðlar fullyrða að kostnaðurinn við að ráða Roy Keane væri 75 milljónir króna á ári. Það er alltof há upphæð fyrir knattspyrnusamband sem sýndi tap í rekstri á síðasta ári.

Já, ég sagði tap. Þó svo fólk hafi verið látið halda að sambandið hafi sýnt hagnað var sú ekki raunin. Ástæðan er að þó svo sambandið segi rekstrarhagnað ársins 2010 67 milljónir milljónir króna er það áður en greitt er til aðildarfélaganna vegna barna- og unglingastarfs, leyfiskerfis og fleira, samtals 83 milljónir. Tapið því nærri 16 milljónir og ljóst að reksturinn býður varla upp á svo dýran þjálfara sem Keane er. Eða ætluðu menn að hætta að greiða til aðildarfélaganna til að eiga fyrir stóra nafninu?
banner
banner
banner
banner