Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   mán 14. maí 2012 16:30
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Tjöldin falla
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
Alessandro Del Piero.
Alessandro Del Piero.
Mynd: Getty Images
Gennaro Gattuso.
Gennaro Gattuso.
Mynd: Getty Images
Þegar stórmeistari yfirgefur sviðsljósið opnast flóðgáttir tilfinninga. Oft með þeim hætti að maður finnur sig knúinn til að votta þeim virðingu sína, jafnvel með því að stinga niður penna. En þegar Alessandro Nesta, Alessandro Del Piero, Gennaro Gattuso, Gianluca Zambrotta og Filippo Inzaghi yfirgefa lið sín og sumir jafnvel fótbolta yfirhöfuð, allir á sama deginum duga vart skrifuð orð. Það verður einfaldlega of mikið.

Heljarmenni, fyrirmyndir – heimsmeistarar! Fyrir mig sem hefur fylgst lengi með Serie-A í gegnum súrt og sætt, allt frá 9. Júlí 2006 til Calciopoli skandalsins. Allt frá tapinu gegn Suður-Kóreu 2002 til þrennunnar miklu sem Inter vann 2010. Allt þetta spilast aftur og aftur í höfðinu á manni þegar maður heyrir um brottför þessara manna sem hver á sinn hátt hefur ljáð deildinni lit ár eftir ár. Deildin verður án efa fátækari á næsta ári.

Þakklæti mitt til þessarar kynslóðar á sér lítil takmörk. Hvenær fæ ég næst að sjá mann stjórna vörn Milan af jafnmikilli reynslu og Alessandro Nesta? Hvenær fæ ég sem Romastuðningsmaður næst gæsahúð af því að sjá Juventus-mann lyfta titlinum á heimavelli sínum líkt og Del Piero gerði síðasta sunnudag? Mun einhvern tímann koma nýr Filippo Inzaghi fram á sjónarsviðið, sem líkt og hinn upprunalegi fagnar öllum mörkum sínum líkt og um væri að ræða sigurmark á heimsmeistaramóti?

„You don’t realize what you have until it’s gone” er frasi sem oftast er notaður í væmnum statusum hjá einstaklingi í ástarsorg. En þessi ofnotaði frasi á svo vel við hér. Þegar allir helstu máttarstólpar ítalskrar knattspyrnu undanfarinna ára yfirgefa deildina einn góðan vordag þá fá allar þá öðlast allar klisjur líf. Framistaða Nesta gegn Barcelona síðastliðið haust skilur mig enn þann dag í dag eftir orðlausan. Del Piero og Inzaghi skoruðu báðir í síðustu leikjum sínum fyrir félög sín.

Gattuso grét stoltum tárum fyrir leikinn og mér líður eins og það hafi verið í gær þegar hann stóð gólandi á Circo Massimo fyrir framan ítölsku þjóðina syngjandi níðsöngva um Frakkland eins og honum einum er lagið, enn í sigurvímu eftir úrslitaleikinn daginn áður. Zambrotta stóð síðan pliktina í bakverðinum af stakri snilld eins og við höfum lært að þekkja svo vel.

Sumir þessara leikmanna hafa haft uppi áform um að spila áfram. Líklegur áfangastaður Nesta er talinn vera Major League Soccer. Del Piero hyggst spila áfram í Serie-A með öðru liði. Gattuso dreymir um endurkomu í skosku deildina. En þeirra bestu ár eru því miður að baki og mér finnst alltaf skemmtilegra að kveðja meistara á meðan hann stendur enn hnarreistur á hátindi ferilsins.

Endalaust væri hægt að tala um þessa menn, en líkt og farsælir ferlar þeirra, þá verður þessi pistill líka að enda einhvern tíman.

Til þessara mikilmenna á þessum tíma er tjöldin falla:
Takk fyrir mig
Athugasemdir
banner