Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
banner
   lau 18. desember 2004 23:59
Steven Gerrard (Liverpool 7)
Áfram höldum við á Fótbolti.net að telja niður til jóla með því að kynna bestu knattspyrnumenn heims að mati lesenda okkar. Á aðfangadag verður besti leikmaður heims kynntur en nú er það leikmaðurinn sem varð í áttunda sæti í kjörinu.


7. Steven Gerrard

Steven Gerrard er fæddur í Whiston einu úthverfa Liverpool 30. maí 1980 og fór snemma að sparka bolta með staðarliði sínu Whiston Juniors. Hann ólst upp í góðri trú sem aðdáandi Liverpool og tóku útsendarar félagsins eftir honum níu ára gömlum og fengu hann til liðs við uppáhaldsliðið sitt.

Hann upplifði nú draum hvers Liverpoolaðdáenda. Þegar hann lék sér í fótbolta á götunni vildi hann yfirleitt vera Ian Rush, John Barnes eða Peter Beardsley. Gerrard lék með öllum yngi liðum Liverpool og ungur að árum komst hann í varaliðið.

En hæfileikum hans var ekki veitt verðskulduð athygli allsstaðar. "Mér var neitað um pláss í Lilleshall - knattspyrnuskóla enska knattspyrnusambandsins og ég komst aldrei í U-15 ára landsliðið. Mér var sagt að ég væri ekki nógu góður vegna þess að að ég væri of lítill. Ég óx síðan hratt og mátti rekja mörg meiðsli mín til þess, í baki og liðböndum. Þegar ég var 15 ára gamall þá var ég jafnhár og Owen en hann er eins og dvergur við hliðina á mér núna".
Liverpool þurfti að halda aftur af honum á unglingsárum sínum vegna meiðsla. Hann er enn spilandi í dag vegna þess hve gætilega þeir sáu um hann. Vaxtarverkir gerðu það að verkum að hann gat aðeins leikið 20 leiki á tveimur árum frá 14 ára til 16 ára aldurs.

Í lok nóvember 1998 átti Liverpool leik gegn Celta Vigo á Spáni í Evrópukeppni félagsliða. Meiðsli og leikbönn gerðu það að verkum að Steven og félagi hans Stephen Wright fóru með liðinu til Spánar en léku hvorugur með. Nokkrum dögum síðar þann 29. nóvember lék Gerrard sinn fyrsta leik með aðalliðinu þegar hann kom inná fyrir Vegard Heggem og lék síðustu tvær mínúturnar þegar Liverpool lagði Blackburn 2:0 á Anfield. Steven lék 13 leiki á fyrsta tímabili sínu sem hefðu líklega orðið fleiri ef hann hefði ekki átt við meiðsli að stríða.

Gerrard hafði staðið sig framar björtustu vonum miðað við ungan aldur. Hann var jú aðeins 18 ára. Þrisvar sinnum valdi staðarblaðið The Liverpool Echo hann besta mann leiksins. Hann sýndi fjölhæfni og þroska að takast á við ólíkar stöður á vellinum. Að þessu sinni var ekki hægt að horfa framhjá honum varðandi val í landsliðið. Gerrard varð fyrirliði u-18 ára landsliðsins undir stjórn Howard Wilkinson. Hann lék síðan sinn fyrsta leik fyrir u-21 árs landsliðið gegn Luxemborg 3. september 1999. Hann skoraði fyrsta mark leiksins í 5-0 sigri og var jafnframt valinn maður leiksins.

Gerard Houllier treysti Gerrard til að vera í byrjunarliðinu í upphafi tímabilsins 1999-2000. "Þetta er Liverpool. Ég er 19 ára gamall svo að ég get varla beðið um meira." Hollier var ánægður með hann en þessi fyrrverandi stjóri Liverpool hafði ástæðu til að kvarta undan stráknum er Liverpool mætti Everton tveimur vikum síðar
"Að vera rekinn útaf gegn Everton var lægsti punkturinn á ferli mínum. Ég hafði leikið alla leikina hingað til við hlið Jamie Redknapp en nú taldi stjórinn að Didi Hamann væri tilbúinn. Hann setti hann í byrjunarliðið á minn kostnað og ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Þegar hann las upp byrjunarliðið var ég með kökk í hálsinum.

Hugarfarið mitt yfir þenann leik var því ekki á réttum nótum og útafreksturinn var afleiðing af því. Stjórinn var bálreiður við mig og kallaði mig inná skrifstofuna sína. Hann sagði mér að hann vildi hafa mig inná vellinum ekki utan hans. Ég var í leikbanni í þrjá leiki og þetta gerði næstum því út um tímabilið fyrir mér. Þetta er slæm minning en ég hef lært af atvikinu. Ég hef reynt að fara varlegar í tæklingar og standa í lappirnar. "


Gerrard var í aðalhlutverki í u-21 árs landsliðinu sem tryggði sér sæti í Evrópukeppni u-21 árs landsliða um sumarið í Slóvakíu. England vann Júgóslavíu 3-0 í maí í úrslitaleik um eina sætið sem var laust og var Gerrard maður leiksins. En það var ljóst að Howard Wilkinson þjálfari liðsins myndi ekki njóta krafta Gerrard í þeirri keppni.
Gerrard lék loks sinn fyrsta A-landsleik fyrir England 31. maí 2000 í 2-0 sigri gegn Úkraínu á Wembley og var sama dag valinn í EM 2000 hóp Kevin Keegan. "Ég þarf ekki að sannfæra hann um að hann geti staðið sig vel á alþjóðavettvangi því að hann getur séð það sjálfur miðað við frammistöðu sína í dag. Hann mun verða betri og betri og leika stórt hlutverk í framtíð enska landsliðsins", sagði Keegan á blaðamannafundi eftir leikinn.

Meiðsli háðu Gerrard hins vegar framan af keppnistímabilinu 2000/2001 og var jafnvel óttast að hann þyrfti að fara í uppskurð. Hrakfallasaga hans með enska landsliðinu hélt áfram og víst er að landsleikirnir væru mun fleiri ef hann væri ekki svona óheppinn.

Steven hóf árið 2001 af krafti strax á nýársdag. Andstæðingarnir voru Southampton og á 12. mínútu fékk hann boltann vel utan teigs: "Ég hef ekki áður neglt á markið á æfingum svona langt frá. Viku áður skoraði ég fyrsta markið mitt utan teigs gegn Arsenal þannig að ég ákvað í leiknum gegn Southampton að láta vaða nokkrum sinnum í viðbót.

Ef þú skýtur og hittir hornfánann þá hata þig allir en ef þú skorar þá ertu hetja. Boltinn þeyttist af fæti mínum og ég sá að boltinn myndi annaðhvort fara í þverslána eða klínast í markið. Ég hefði fengið skömm í hattinn frá stjóranum og Phil Thompson ef ég hefði klikkað en þegar boltinn flaug inn þá reikna ég með að þeir hafi verið sáttir.

Ég man að ég hugsaði með mér: 'Vá! Ég mun ekki skora fallegra mark en þetta í langan tíma. Ég var himinlifandi þegar boltinn fór í netið en ég var líka í hálfgerðu sjokki eins og sjá má af fagnaðarlátum mínum."
Eitt glæsilegasta mark tímabilsins á Englandi leit dagsins ljós og reyndist Gerrard hafa verið 30 metra frá marki og hraðinn á boltanum mældist 132 kílómetrar á klst.
Gerrard missti af mikilvægum leikjum gegn Roma í febrúarmánuði en náði að hrista af sér slenið til að leika gegn Birmingham í úrslitum Wortington-bikarsins og vinna sinn fyrsta verðlaunapening. Gerrard var orðinn óþreyjufullur að sýna hvað hann gæti og hann fór mikinn og stóð sig það vel að hann var útnefndur leikmaður marsmánaðar í ensku úrvalsdeildinni. Hann hafði þrisvar sinnum verið valinn sá efnilegasti en þetta var í fyrsta skipti sem hann hlaut þessa nafnbót.

Stórleikur hans gegn Porto á Anfield í 2-0 sigri í 8 liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða átti síst ekki stóran þátt í þessari útnefningu. Hann átti báðar stoðsendingarnar og þvílíkt þrumuskot sem markvörður Porto varði stórglæsilega. Hann tók menn á á kantinum með bravör, tæklaði eins og naut í flagi og barðist og barðist. Það sem setti svo punktinn yfir i-ið var hreystileg framganga hans gegn meisturum Manchester United. Hann skoraði með þrumuskoti á 16. mínútu sem Barthez réð engan veginn við.

Gerrard vann tvo titla til viðbótar á leiktíðinni. FA bikarinn sem og UEFA bikarinn eftir tvo magnaða úrslitaleiki við Arsenal og Alaves frá Spáni.

Á tímabilinu 2001/2002 spilaði Gerrard 28 leiki og skoraði 2 mörk. Næsta tímabil hans var svipað en þá spilaði hann 34 leiki og skoraði jafn mörg mörk. Hann þróaðist stöðugt sem leikmaður og var að verða eitt mesta efni Englands.

Á tímabilinu 2003/2004 var Gerrard orðinn einn besti maður Liverpool og ómissandi á miðjuna hjá liðinu. Hann náði vel saman með Michael Owen vini sínum en það sem gerðist eftir tímabilið kom honum í opna skjöldu. Þá fór Owen frá Liverpool til Real Madrid.

Eins og allir vita var Chelsea á höttunum eftir Gerrard um svipað leiti. Hann ákvað þó að vera áfram hjá Liverpool en hann hefur alltaf sagt að hann vilji vinna til verðlauna, en allra helst með liðinu sínu. Þetta sagði hann árið 2001:

Þó að ég myndi leika hér í áratug og skora fullt af mörkum en hefði enga verðlaunapeninga til að sýna fram á árangur liðsins þá er það lítils virði. Ég vil að fólk segi: "Steven Gerrard vann tvo Evróputitla, tvo F.A.-bikara og fjóra deildarmeistaratitla." Þetta er gott dæmi um metnað Gerrard sem þessa dagana setur liði sínu nánast úrslitakosti, ef hann á að vera áfram hjá liði sínu.
Hann hefur á þessu tímabili verið afgerandi bestur í liði Liverpool og hreinkega drífur liðið áfram. Kraftur hans og áræðni er með ólíkindum og fáir velkjast í vafa um að hann er einn ebsti miðjumaður Evrópu og jafnvel þótt víða væri leitað.

Skot hans og sendingar eru með eindæmum nákvæm og það er ljóst að ef hann fer frá Liverpool, verður skarð hans vandfyllt. Hann er orðinn að fyrirliða liðsins og fáir eru jafn mikilvægir liði sínu og Steven Gerrard.

Birt með góðfúslegu leyfi vefsíðu Liverpoolklúbbsins á Íslandi, Liverpool.is

Sjá einnig:
Nr. 8: Adriano (Inter)
Nr. 9: Ruud van Nistlerooy (Manchester United)
Nr. 10: Gianluigi Buffon (Juventus)
Nr. 11: Eiður Smári Guðjohnsen (Chelsea)
Nr. 12: Ronaldo (Real Madrid)
Nr. 13: Arjen Robben (Chelsea)
Nr. 14: Sol Campbell (Arsenal)
Nr. 15: Patrick Vieira (Arsenal)
Nr. 16: Alessandro Nesta (AC Milan)
Nr. 17: Wayne Rooney (Manchester United)
Nr. 18: Paolo Maldini (AC Milan)
Nr. 19: David Beckham (Real Madrid)
Nr. 20: John Terry (Chelsea)
Nr. 21: Cristiano Ronaldo (Manchester United)
Nr. 22: Edgar Davids (Inter Milan)
Nr. 23: Kaká (AC Milan)
Nr. 24: Michael Owen (Real Madrid)

Athugasemdir
banner
banner
banner