Kompany vill taka við Bayern - Isak og Brobbey efstir á blaði Arsenal - McKenna orðaður við Chelsea og Man Utd
   sun 22. maí 2005 22:50
Elvar Geir Magnússon
Þrjú stig fuku til KR í kvöld (Umfjöllun)
Tveir bestu menn leiksins eigast við.
Tveir bestu menn leiksins eigast við.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
KR hefur nú leikið tvo fyrstu leiki sína á Íslandsmótinu þetta árið, liðið hefur fullt hús stiga. Undirritaður hefur farið á báða þessa leiki og verður að segja eins og er að furðulegt er að báða þessa leiki hafi þeir náð að sigra. KR spilaði hörmulega gegn Fylki en lukkudísirnar voru í þeirra liði og í kvöld sást að þær hafa ekki haft félagaskipti.

Stórt batamerki var á leik KR í kvöld ef miðað er við leikinn í Árbænum, samt sem áður var langt frá því að vera einhver meistarabragur á liðinu. Reyndar er spurning hvort eitthvað lið geti sýnt meistaratakta í þeim aðstæðum sem voru í boði í kvöld, rokið kom í veg fyrir að hægt væri að leika alvöru fótbolta og ekki var kuldinn að bæta neitt.

Það voru Framarar sem fengu þann heiður að vera fyrsta liðið til að heimsækja KR-inga þetta tímabilið. Liðið hefur sjaldan litið betur út en einmitt núna og flestir menn sammála um að Ólafur Kristjánsson sé á hraðleið í rétta átt með liðið. Í fyrstu umferð átti Fram ekki í vandræðum með að rúlla yfir Eyjamenn og í kvöld sýndi liðið aftur að ýmislegt er í það spunnið.

Það tók menn tíma að venjast aðstæðum enda var boltinn, með hjálp frá Kára, ekki alveg á því að fara í þá átt sem menn vildu að hann færi. Leikurinn var opinn og nokkuð skemmtilegur þrátt fyrir erfiðar aðstæður og fengu bæði lið fín færi í fyrri hálfleik til að skora en án árangurs.

Framarar höfðu meira vald á boltanum í fyrri hálfleik gegn vindinum og þeirra besta færi fyrstu 45 mínúturnar fékk Andri Steinn Birgisson þegar hann skallaði boltann hárfínt framhjá. Arnar Gunnlaugsson fékk besta færi KR í fyrri hálfleik en skaut yfir, ljóst er að Arnar á enn nokkuð í land til að ná sínu besta formi.

Markalaust var í hálfleik en strax í byrjun á þeim síðari komust KR-ingar yfir. Helmis Matute sýndi þá góð tilþrif þegar hann var kominn upp vinstri kantinn, fíflaði Andra Stein og átti góða fyrirgjöf. Þar kastaði hinn færeyski Rógvi Jacobsen, sem kom inn sem varamaður, sér fram og skallaði boltann snyrtilega framhjá Gunnari Sigurðssyni.

Það tók nokkurn tíma fyrir gestina að jafna sig á þessu áfalli en hægt og bítandi komst liðið aftur inn í leikinn en fundu enga leið framhjá besta manni vallarins, Kristjáni Finnbogasyni markverði KR. Viðar Guðjónsson átti hörkuskot sem Kristján varði. Þegar Framarar fundu loks leið framhjá Kristjáni þá var það stöngin sem bjargaði því að skot Heiðars Geirs Júlíussonar færi ekki inn.

Á lokamínútunum mátti oft litlu að þetta myndi detta fyrir Fram en það gerði það aldrei og liðið fór heim í Safamýri með báða vasa tóma. Liðið lék þó vel í leiknum en náðu ekki að sigra KR-inga sem eiga hrós skilið fyrir fína baráttu í leiknum en heppnin var einnig með þeim í liði.

Að mínu mati voru tveir yfirburðarmenn í báðum liðum. Hjá KR var það Kristján Finnbogason markvörður sem steig vart feilspor en hjá Fram var það Andri Fannar Ottóson. Andri virðist vera í betra formi en nokkru sinni fyrr og með hraða sínum getur hann gert flestum mönnum í þessari deild lífið leitt. Kristján fær þó titilinn maður leiksins og geta nær allir þeir sem á vellinum voru tekið undir það. Grétar Hjartarson náði ekki að sýna sitt rétta andlit en hann fann fyrir meiðslum og vildi KR ekki taka neina áhættu og var hann tekinn af velli.

Hjá KR var Sigmundur Kristjánsson að standa sig mjög vel en þar er á ferð hörkugóður leikmaður og er hreint með ólíkindum hve lítið hann fékk að spila í fyrra. Hann færði sig í bakvörðinn í fyrri hálfleik og stóð sig vel. Sigurvin Ólafsson var fínn á miðjunni og þá áttu varamennirnir Rógvi og Gunnar Kristjánsson góðar innkomur. Lið Fram var jafnara en hægt að nefna Ross McLynn, Ingvar Ólason og Ríkharð Daðason en allir unnu þeir vel.

Jóhannes Valgeirsson dæmdi leikinn ágætlega í heild þó samræmi hefði á tíðum skort. Þá má setja spurningamerki við það að Bjarnólfur Lárusson fékk gult spjald fyrir sitt fyrsta brot sem var langt frá því að geta talist gróft. Spurning er hvort Bjarnólfur sé kominn með einhvern stimpil á sig? En eins og áður sagði var lítið undan Jóhannesi að kvarta og sinnti hann hlutverki sínu ágætlega.

Undirritaður var staðsettur á meðal stuðningsmanna KR í seinni hálfleik og var athyglisvert að fylgjast með hve heilagir leikmenn liðsins eru í þeirra augum og voru margir þeirra á tíðum ósáttir með að verið væri að reyna að ná boltanum af þeim! Þá virtist það vera þeim mikið kappsmál að föst leikatriði yrðu tekin á nákvæmlega þeim stað þar sem brotið var og ekki mátti skeika sentimetrum. En KR-ingar eru góðir stuðningsmenn, hafa sínar skoðanir og láta í sér heyra.

Það sem er samt kannski efst í huga manns eftir svona leik er ánægjan með að vera kominn heim í hlýjuna. Kuldinn var að angra margan manninn meðan á leiknum stóð og vona ég að bjartari tímar séu framundan.

KR: Kristján Finnbogason, Tryggvi Sveinn Bjarnason, Helmis Matute, Bjarnólfur Lárusson, Ágúst Gylfason, Sölvi Davíðsson, Sigurvin Ólafsson, Grétar Hjartarson (Gunnar Kristjánsson 61), Gunnar Einarsson (Rógvi Jacobsen 40), Sigmundur Kristjánsson, Arnar Gunnlaugsson (Vigfús Arnar Jósepsson 79).

Fram: Gunnar Sigurðsson, Ross McLynn (Ómar Hákonarson 85), Ingvar Ólason, Viðar Guðjónsson, Gunnar Þór Gunnarsson, Andri Steinn Birgisson (Heiðar Geir Júlíusson 73), Ríkharður Daðason, Andri Fannar Ottósson, Þórhallur Dan Jóhannsson, Kristján Hauksson, Hans Matthiesen (Ívar Björnsson 75)


Skemmtanagildi: 7 (kuldinn dregur niður um einn heilan)
Maður leiksins: Kristján Finnbogason
Vallaraðstæður: Fínar
Veður: Vindur og kuldi
Athugasemdir
banner
banner
banner