mið 01. febrúar 2023 16:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Björgvin stefnir á að snúa aftur eftir þriggja ára veikindi
Björgvin Stefánsson.
Björgvin Stefánsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslandsmeistaratitlinum fagnað með KR.
Íslandsmeistaratitlinum fagnað með KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fagnar marki með Haukum.
Fagnar marki með Haukum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég gat ekki hlaupið í rosalega langan tíma og ég finn það að grunnþolið er ekki alveg upp á það besta. Ég ætla mér að vinna í því'
'Ég gat ekki hlaupið í rosalega langan tíma og ég finn það að grunnþolið er ekki alveg upp á það besta. Ég ætla mér að vinna í því'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Veikindi hafa haldið Björgvin Stefánssyni fjarri fótboltavellinum síðastliðin þrjú ár. Síðasti keppnisleikur hans var í mars árið 2020 er hann byrjaði í 4-3 sigri KR gegn Leikni í Lengjubikarnum.

Núna stefnir Björgvin á það að snúa aftur inn á völlinn í sumar, en hann staðfestir þetta í samtali við Fótbolta.net.

„Ég gaf þannig séð aldrei út að ég væri hættur. Ég hélt alltaf í vonina," segir Björgvin.

Hann greindist með gigt í byrjun árs 2020 og hefur ekkert getað beitt sér síðan þá. Hann byrjaði hins vegar á lyftæknilyfjum í september síðastliðnum og það hefur gjörbreytt heilsu hans.

„Ég þurfti að hætta að æfa og gat í rauninni ekkert hreyft mig; gat ekki skokkað, hjólað eða neitt. Þetta var í hægra hnénu á mér. Ég var í gigtarmeðferð sem var eiginlega ekkert að virka. Svo fékk ég loksins að fara á líftæknilyf í september og það skilaði strax árangri."

„Mánuði seinna var ég byrjaður að skokka og svo ég fór ég í bolta með strákunum á milli jóla og nýárs. Ég fann ekki fyrir neinu. Gigtin er alveg farin. Ég er ansi bjartsýnn og set klárlega stefnuna á að spila fótbolta í sumar."

Ekki meiðsli, heldur veikindi
Hann segir að óvissan hafi verið mikil og það hafi í raun verið verst við þessi veikindi.

„Ég fann fyrst fyrir þessu þegar við vorum að æfa sjálfir í Covid. Það kom stingur í hnéð. Menn voru ekki alveg vissir hvað þetta væri. Menn héldu að þetta væri kannski liðband eða liðþófi. Ég fór í rannsóknir og svo kom í ljós að ég væri með gigt. Þetta lýsir sér þannig að þetta eru ekki meiðsli, þetta eru veikindi. Ónæmiskerfið mitt var eitthvað að klikka og framleiddi alltaf vökva og bólgur inn á hægra hnéð," segir Björgvin.

„Við prófuðum að tappa af þessu þrisvar eða fjórum sinnum, en þá var komið sama magn af vökva sólarhring síðar. Hreyfigetan var engin. Þegar ég var að keyra úr Vesturbæ yfir í Hafnarfjörð þá þurfti ég að leggja bílnum út í kant í tíu mínútur til að hvíla því ég var svo rosalega verkjaður. Ég var ekki rúmliggjandi en ég var mjög verkjaður og gat varla stigið í fótinn."

Gerist þetta bara upp úr þurru?

„Þetta heitir fylgigigt. Þetta gerist í kjölfarið á einhvers konar veirusýkingu. Mjög líklega er það matareitrun sem veldur þessu. Ég losna ekki við veiruna úr líkamanum og ég þróa með mér þessa gigt út frá því."

Ótrúlega erfitt að stíga frá fótboltanum
Líkt og áður segir þá þurfti Björgvin að taka sér frí frá fótbolta í að verða þrjú ár.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá er þetta búið að vera alveg rosalega erfitt," segir Björgvin um það hvernig hefur verið að fylgjast með fótbolta sem áhorfandi.

„Ég mætti eitthvað til að byrja með á KR-völlinn að fylgjast með mínum mönnum, en þetta var það sárt að ég gat það ekki. Ég elska fótbolta og fylgist með Bestu deildinni, horfi á alla leiki. En ég viðurkenni að þetta var ansi þungt, erfitt."

Þarf að koma sér í hlaupaform
Björgvin var frábær sóknarmaður á sínum tíma og skoraði til að mynda 20 mörk í 22 leikjum með Haukum í 1. deild sumarið 2015. Út frá því fór hann svo í KR nokkrum árum síðar.

„Menn hafa verið að taka púlsinn á mér, en ég er búinn að vera lengi frá. Ég fór að leika mér strákunum úr Haukum milli jóla og nýárs og fann það að ég var orðinn alveg góður. Ég fann það á sama tíma að það vantaði svolítið upp á hlaupaformið og þannig," segir Björgvin og bætir við:

„Það er lítið mál samt að laga það."

„Það er númer eitt, tvö og þrjú hjá mér núna að koma mér í hlaupaform. Ég er annars í góðu líkamlega standi. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á líkamsrækt og hef haldið mér við þannig. Ég gat ekki hlaupið í rosalega langan tíma og ég finn það að grunnþolið er ekki alveg upp á það besta. Ég ætla mér að vinna í því."

„Svo er stefnan að fá að prófa að mæta á æfingar þar sem það býðst. Svo sé ég hvar ég stend," sagði Björgvin að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner