Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 01. desember 2021 22:18
Brynjar Ingi Erluson
England: Salah gerði tvö í sigri á Everton - Chelsea og Man City unnu
Mohamed Salah skoraði tvö fyrir Liverpool
Mohamed Salah skoraði tvö fyrir Liverpool
Mynd: EPA
Ruben Dias gerði fyrra mark Man City gegn Villa
Ruben Dias gerði fyrra mark Man City gegn Villa
Mynd: Getty Images
Mason Mount
Mason Mount
Mynd: Getty Images
Liverpool er áfram með montréttinn í Liverpool-borg eftir 4-1 sigur á Everton á Goodison Park. Mohamed Salah gerði tvö mörk fyrir Liverpool. Chelsea og Manchester City unnu bæði sína leiki.

Það tók Jordan Henderson einungis níu mínútur að koma Liverpool yfir en það gerði hann eftir sendingu frá Andy Robertson. Henderson fékk boltann rétt fyrir utan teig og afgreiddi færið snyrtilega í vinstra hornið.

Ellefu mínútum síðar bætti Salah við öðru marki. Henderson átti langan bolta út hægri vænginn, þar var Salah, sem keyrði inn í teiginn og skoraði framhjá Jordan Pickford.

Demerai Gray minnkaði muninn á 38. mínútu. Hann fór á milli varnarmanna Liverpool og setti boltann undir Alisson. Boltinn fór af markverðinum og skoppaði í netið. Óvænt mark hjá gestunum og Everton inni í leiknum.

Liverpool hefði hæglega getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleiknum á meðan Everton vann sig hægt og bítandi inn í leikinn. Gestirnir gerðu út um leikinn á 64. mínútu.

Slæm mistök frá Seamus Coleman varð til þess að Salah stal boltanum, keyrði upp allan völlinn og skoraði í hægra hornið og um það bil fimmtán mínútum síðar rak Diogo Jota síðasta naglann í kistu Everton.

Robertson átti sendingu inn í teig, Jota fékk boltann, tók skemmtilega gabbhreyfingu áður en hann þrumaði boltanum í þaknetið vinstra megin. 4-1 sigur LIverpool á Goodison Park og liðið í 3. sæti með 31 stig á meðan Everton er í 14. sæti með 15 stig.

Erfiðisvinna hjá Chelsea - Man City lagði Aston Villa

Chelsea var í basli með lið Watford á Vicarage Road. Heimamenn fengu tvö góð færi á fyrstu mínútum leiksins og ljóst að þetta yrði erfiður leikur fyrir toppliðið.

Á 13. mínútu var leikurinn stöðvaður eftir að áhorfandi fékk hjartastopp í stúkunni. Leikurinn var stopp í dágóðan tíma áður en fór aftur af stað.

Mason Mount átti skot í stöng fyrir Chelsea stuttu síðar og markið kom svo á 29. mínútu eftir góða sókn. Kai Havertz fékk boltann, lagði hann á fjærstöngina á Mount sem skoraði.

Watford fékk mikla orku eftir markið og eftir að nokkur færi fóru forgörðum kom jöfnunarmarkið. Emmanuel Dennis fór illa með Antonio Rudiger áður en hann skoraði framhjá Edouard Mendy í markinu. Watford gat auðveldlega komist yfir undir lok fyrri hálfleiks en liðið náði ekki að nýta færin.

Chelsea náði í sigurmarkið á 72. mínútu er Hakim Ziyech skoraði eftir sendingu frá Mount. Lokatölur 2-1 á Vicarage Road. Þetta var erfiðisvinna hjá Chelsea en hafðist þó og liðið enn á toppnum með 33 stig.

Manchester City vann á meðan Aston Villa, 2-1. Liðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik þökk sé mörkum frá Ruben Dias og Gabriel Jesus og hefðu þau getað verið fleiri.

Villa-menn fengu vonarneista í byrjun síðari hálfleiks er Ollie Watkins skoraði eftir sendingu frá Douglas Luiz. Villa-menn vildu fá vítaspyrnu er Eszri Konsa taldi Nathan Ake hafa brotið á sér en VAR sá ekkert athugavert við það.

City var mest megnis með boltann út leikinn og hafði sigur, 2-1 og er í 2. sæti með 32 stig. Fyrsta tap Villa undir stjórn Steven Gerrard, staðreynd.

Úrslit og markaskorarar:

Aston Villa 1 - 2 Manchester City
0-1 Ruben Dias ('27 )
0-2 Bernardo Silva ('43 )
1-2 Ollie Watkins ('47 )

Everton 1 - 4 Liverpool
0-1 Jordan Henderson ('9 )
0-2 Mohamed Salah ('19 )
1-2 Demarai Gray ('38 )
1-3 Mohamed Salah ('64 )
1-4 Diogo Jota ('79 )

Watford 1 - 2 Chelsea
0-1 Mason Mount ('29 )
1-1 Emmanuel Dennis ('43 )
1-2 Hakim Ziyech ('72 )
Athugasemdir
banner
banner