Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 02. mars 2021 12:54
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Guardian 
Kínversku meistararnir lagðir niður - Krísa í kínverska boltanum
Æfingasvæði Jiangsu FC en félagið hefur verið lagt niður.
Æfingasvæði Jiangsu FC en félagið hefur verið lagt niður.
Mynd: Getty Images
Það er krísa í kínverska boltanum.
Það er krísa í kínverska boltanum.
Mynd: Getty Images
Arnór Smárason heimsótti kínverskan skóla fyrir nokkrum árum.
Arnór Smárason heimsótti kínverskan skóla fyrir nokkrum árum.
Mynd: Getty Images
Það er gríðarlegt óvissuástand í kínverska fótboltanum eftir að meistararnir í Jiangsu Suning FC tilkynntu á sunnudag að þeir höfðu lagt niður starfsemi, þremur mánuðum eftir að hafa tryggt sér sigur í kínversku Ofurdeildinni.

Alls hafa sextán félög í þremur efstu deildum í Kína lagt upp laupana á undanförnum tólf mánuðum. Tianjin Tianhai varð gjaldþrota í maí í fyrra og Tianjin Tigers gæti farið sömu leið.

Það er áratugur síðan forseti Kína, Xi Jinping, sagði að það væri kominn tími til að Kína myndi gera sig gildandi af alvöru í fótboltaheiminum.

En samsteypur og fyrirtæki sem eiga fótboltafélög í Kína hafa verið að lenda í vandræðum og það leiðir inn í félögin.

Covid-19 hefur mikil áhrif
Smásölurisinn Suning mætti inn í fótboltann 2015 og fór strax að eyða háum fjárhæðum í lið Jiangsu. Ramires kom frá Chelsea, Alex Teixeira hafnaði Liverpool til að gera slíkt hið sama og Fabio Capello var stjóri liðsins um tíma. Félagið var nálægt því að fá Gareth Bale 2019.

Fótboltafélagið var rekið með tapi en Suning hafði nóg milli handanna, þar til Covid-19 faraldurinn fór að geysa. Fyrirtækið reyndi að selja Jiangsu en ekki tókst að finna kaupanda og félagið var því lagt niður.

Tianjin Tigers er eitt elsta félag Kína en það hefur verið í eigu Teda samsteypunnar síðan 1998. En út af nýjum reglum í kínverska boltanum sem banna félögum að heita eftir fyrirtækjum varð Tianjin Teda að Tianjin Tigers. Út af þessum reglum ákvað Teda að hætta þessari fjárfestingu og Tianjin Tigers fæðist því mögulega andvaka.

Í febrúar var Shandong Luneng kastað út úr asísku meistaradeildinni þar sem félagið skuldaði fyrrum starfsmönnum laun.

Vilja að kínversk félög verði sjálfbærari
Kínverska knattspyrnusambandið vill að félög reiði sig ekki algjörlega á stór fyrirtæki og vill að þau verði sjálfbærari. Sett hefur verið upp launaþak fyrir tímabilið 2021 sem á að fara af stað í apríl. Erlendir leikmenn geta mest fengið um 2,7 milljónir punda á ári en það jafngildir nánast mánaðarlaunum Carlos Tevez þegar hann var hjá Shanghai Shenhua. Tevez hefur talað um að vera sína hjá félaginu hafi verið eins og að skella sér í frí.

Kínverski fótboltinn er þó ekki orðinn peningalaus. Shanghai Seaport er með Oscar og Marko Arnautovic en samningar þeirra voru samþykktir áður en launaþakið var sett á. Félagið tilkynnti í síðustu viku um 3 milljóna punda kaup á króatíska varnarmanninum Ante Majstorovic.

Háum fjárhæðum eytt í grasrótina
Peningarnir í kínverska boltanum þöndust út á gríðarlega miklum hraða og þó kínverska Ofurdeildin sé í erfiðri stöðu þá munu Kínverjar halda áfram uppbyggingu í fótboltanum hjá sér, þegar kemur að grasrótinni.

Háum fjárhæðum hefur verið varið í að þróa þjálfun fyrir yngstu kynslóðina, fótboltaáætlun fyrir þúsundir skóla mun halda áfram og það er bjartsýni á að þetta muni bera ávöxt. Kína stefnir enn á að sækja um að halda heimsmeistaramót.

Til lengri tíma litið gæti framtíðin enn verið björt en það veltur á því hvernig kínverski fótboltinn bregst við núverandi ástandi þar sem mörg félög standa á brauðfótum og reiða sig alfarið á peninga frá fyrirtækjum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner