
Jón Dagur Þorsteinsson, sonur Þorsteins Halldórssonar þjálfara kvennalandsliðsins, kom föður sínum til varnar í sumar þegar sérfræðingar RÚV gagnrýndu þjálfarann.
Jón Dagur birti færslu á samfélagsmiðlinum Instagram fyrr í sumar þar sem hann skrifaði: „Var regla þegar RÚV valdi í settið, að annað hvort gastu ekkert eða veist ekkert?"
Á meðal sérfræðinga sem Jón Dagur gagnrýndi var Ólafur Kristjánsson, en hann var nýlega ráðinn sem aðstoðarlandsliðsþjálfari kvenna. Þorsteinn Halldórsson var spurður um hvort að hann skipti sér af samfélagsmiðlafærslum sonarins í viðtali fyrr í dag.
„Ég er ekkert að skipta mér af því, svo lengi sem að það sé ekki yfir einhver velsæmismörk. Þetta er eitthvað sem menn skrifa og fólk lærir að nota samfélagsmiðla rétt, tala af virðingu um allt og alla. Á meðan þetta er ekki gróft og yfir velsæmismörk þá hef ég engar áhyggjur af þessu,“ sagði Þorsteinn.