Með áhugaverðar kröfur
Fotbollskanalen í Svíþjóð ræddi við Graham Potter um möguleika þess að hann taki við sænska landsliðinu eftir brottrekstur Jon Dahl Tomasson á dögunum.
Svíum hefur gengið hörmulega í undankeppni fyrir HM á næsta ári þar sem liðið er aðeins með eitt stig úr fjórum leikjum og þarf á kraftaverki að halda til að stela öðru sæti B-riðils af Kósovó.
Potter er án starfs eftir að hafa verið rekinn frá West Ham United í lok september og er hann staddur í Svíþjóð þessa dagana. Hann varð nafn í fótboltaheiminum eftir magnaðan árangur með Östersund í sænska boltanum, þegar hann fór með liðið úr fjórðu deild og alla leið í Evrópudeildina. Þar datt liðið úr leik gegn Arsenal í 32-liða úrslitum, þrátt fyrir sigur á Emirates leikvanginum.
Potter var hjá Östersund í sjö ár og hefur síðan þá þjálfað Swansea, Brighton, Chelsea og West Ham í enska boltanum. Hann á þrjá syni og eru tveir þeirra fæddir í Svíþjóð, hann segir að þeir elski landið og fótboltann þar.
„Ég er í húsinu mínu í Svíþjóð þessa dagana meðan ég er á milli starfa. Ég er opinn fyrir hvaða starfi sem er þar sem mér líður eins og ég geti hjálpað. Landsliðsþjálfarastarfið hjá Svíþjóð er stórkostlegt starf," sagði Potter við Fotbollskanalen.
Hann segist ekki ætla að velja næsta starf útfrá kjörum, hans kröfur eru einfaldar.
„Ég er bara 50 ára gamall og hef enn upp á margt að bjóða. Fyrir mig snýst þetta ekki um að finna starf á ákveðnu gæðastigi, heldur starf þar sem mér líður eins og ég geti virkilega hjálpað og gert gæfumuninn. Ég vil líka finna það að samstarfsmenn mínir og aðrir hluteigandi aðilar séu á sömu blaðsíðu. Þetta eru kröfurnar mínar.
„Ég er heppinn að hafa átt svona góðan feril sem þýðir að ég er í mjög góðri stöðu fjárhagslega. Þetta er komið á það stig að fjármálin skipta ekki lengur máli þegar ég er að velja mér starf. "
Simon Åström, formaður sænska fótboltasambandsins, er ánægður með orð Potter.
„Auðvitað er alltaf gaman þegar þjálfarar vilja taka við landlsiðinu okkar. Við erum með gæðamikið landslið og Potter er frábær og vel reyndur þjálfari," sagði Simon.
27.09.2025 10:22
Potter rekinn frá West Ham (Staðfest)
Athugasemdir