
Millie Bright hefur tilkynnt að hún mun ekki gefa aftur kost á sér í landsliðsverkefni með Englandi eftir að hún ákvað að sleppa Þjóðadeildinni og EM síðasta sumar.
Bright er 32 ára gömul og er fyrirliði í ógnarsterku liði Chelsea. Hún hefur verið gríðarlega mikilvægur hlekkur í enska landsliðinu á undanförnum árum og bar fyrirliðanbandið á HM 2023, þegar England komst í fyrsta sinn í sögunni alla leið í úrslitaleikinn.
England tapaði úrslitaleiknum gegn Spáni, en Bright var einnig lykilmaður í liðinu sem vann EM 2022 ári áður.
Bright segist taka þessa ákvörðun til að standa vörð um eigin heilsu, bæði andlega og líkamlega. Það var alltof mikið álag að spila bæði fyrir Chelsea og landsliðið.
Englandi tókst að verja Evrópumeistaratitilinn sinn í ár þrátt fyrir fjarveru Bright.
„Þetta er mjög erfið ákvörðun sem ég þurfti að taka. Ég hugsaði um þetta í allt sumar meðan ég glímdi við hnémeiðsli," sagði Bright.
„Þegar maður verður eldri þá breytist forgangsröðunin í lífinu. Ég þrái meiri tíma með fjölskyldunni, vinum og sjálfri mér. Allan ferilinn hef ég harkað af mér og spilað í gegnum meiðsli en núna þarf ég að taka rétta ákvörðun fyrir sjálfa mig. Ég þarf að passa upp á andlega og líkamlega heilsu.
„Ég er ótrúlega stolt að hafa spilað fyrir enska landsliðið svona lengi og ég mun geyma þessar minningar að eilífu. Það er kominn tími á mig."
Bright spilaði 88 landsleiki á níu árum með enska landsliðinu.
03.06.2025 06:00
Búin á sál og líkama og dró sig úr enska landsliðshópnum
Athugasemdir