Man Utd og Palace vilja Bellingham - Nathaniel Brown á blaði Arsenal, City og Real - Chelsea vill Wharton
   mið 15. október 2025 06:00
Kári Snorrason
Háskólaboltinn: Dagur Trausta sjóðheitur - Úlfur lagði upp
Dagur er með fimm mörk í síðustu tveimur leikjum.
Dagur er með fimm mörk í síðustu tveimur leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Þengill var á láni hjá Fjölni í sumar en er samningsbundinn Fram.
Þengill var á láni hjá Fjölni í sumar en er samningsbundinn Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólöf Freyja Þorvaldsdóttir er með 8 mörk og 5 stoðsendingar í 11 leikjum.
Ólöf Freyja Þorvaldsdóttir er með 8 mörk og 5 stoðsendingar í 11 leikjum.
Mynd: KR

Íslenskir leikmenn í háskólaboltanum í Bandaríkjunum létu að sér kveða í síðastliðinni viku, með fjölda marka og stoðsendinga ásamt góðum frammistöðum. Við tókum saman það sem stóð upp úr hjá Íslendingum vestanhafs í nýliðinni viku.


Dagur Traustason, leikmaður FH, heldur áfram að fara á kostum fyrir Virginia Tech en hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 sigri á Louisville. Dagur er kominn með 6 mörk í 7 leikjum á sínu fyrsta tímabili í Bandaríkjunum, en hann skoraði jafnframt þrennu fyrir liðið í síðustu viku. 

Úlfur Ágúst Björnsson, leikmaður FH, spilaði allan leikinn og lagði upp eina mark Duke í 1-1 jafntefli á móti Elon ásamt því að spila allan leikinn í 0-0 jafntefli gegn Boston College á útivelli.

Eiður Baldvin Baldvinsson, leikmaður Þróttar Vogum, skoraði sitt fjórða mark á tímabilinu er hann gerði sigurmarkið fyrir Dartmouth í 2-1 sigri á Columbia. 

Arnór Sölvi Harðarson, leikmaður ÍR, og Viðar Már Ragnarsson, leikmaður Njarðvíkur, voru báðir á sínum stað í byrjunarliði UNC Asheville í góðum 3-0 sigri á Longwood. Arnór lagði upp eitt marka liðsins og hann er kominn með 3 mörk og jafnmargar stoðsendingar á tímabilinu.

Þengill Orrason leikmaður Fram, spilaði allan leikinn fyrir Hofstra og lagði upp sigurmarkið í 3-2 sigri á útivelli gegn Stony Brook þar sem Heiðar Máni Hermannsson leikmaður Hauka var í rammanum hjá liði Stony Brook í leiknum.

Nökkvi Hjörvarsson, leikmaður Þórs Ak., gerði sig gildandi í liði Bradley í tveimur leikjum í síðustu viku. Hann lagði upp eitt af mörkum liðsins í 2-2 jafntefli gegn DePaul og skoraði eina markið í 1-3 tapi gegn Bowling Green. 

Ólöf Freyja Þorvaldsdóttir, leikmaður KR, hélt uppteknum hætti fyrir West Florida og var allt í öllu í tveimur sigurleikjum liðsins. Ólöf var með mark og stoðsendingu í báðum leikjum helgarinnar, 4-0 sigri á Auburn Montgomery og 2-0 sigri á Valdosta State. 

Júlía Ruth Thasaphong, leikmaður Víkings R., var einnig á skotskónum. Hún var með mark og stoðsendingu fyrir Oral Roberts í 2-2 jafntefli gegn St. Thomas MN. Ásamt því að skoraði hún eitt marka liðsins í 2-1 sigri á móti South Dakota. Júlía er komin með 6 mörk og 5 stoðsendingar á sínu síðasta tímabili úti.

Lilja Björg Ólafsdóttir, leikmaður ÍA, í Life U er á lokaári og átti stórkostlega frammistöðu í síðasta leik með mark úr víti og tvær stoðsendingar í 5-0 sigri á móti Brewton-Parker. Marey Helgadóttir og Embla Jónsdóttir spila sömuleiðis fyrir Life sem hafa ekki tapað leik á þessu tímabili.

Auður Halldórsdóttir, leikmaður Selfoss, skoraði fyrir Wingate í 2-3 tapi liðsins á móti Catawba.

Þá var Þórdís Melsted, leikmaður Gróttu, allt í öllu í rammanum hjá Northern Iowa sem vann sinn fyrsta deildarleik á móti Valparaiso og átti Þórdís nokkrar lykilvörslur undir lok leiks til að sigla 2-1 sigri heim fyrir sitt lið.

Liðsfélagi Þórdísar í Gróttu, Margrét Edda Bjarnadóttir, var með stoðsendingu fyrir Louisiana Monroe í 3-2 sigri á móti App State. Margrét var einnig með stoðsendingu í leiknum þar á undan í 3-1 sigri á mót Southern Miss. Louisiana Monroe er ennþá taplaust í deildinni með 4 sigra og 3 jafntefli.

Dagbjört Líf Guðmundsdóttir, leikmaður ÍA, skoraði fyrsta markið fyrir USAO í 2-1 sigri á móti Oklahoma City. Dagbjört var nýlega með instagram takeover fyrir stuttu, sjá nánar hér.


Athugasemdir
banner