Þær Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, María Catharina Ólafsdóttir og Thelma Karen Pálmadóttir eru allar í fyrsta sinn í landsliðshóp A-landsliðs kvenna. Þær verða í hóp þegar Ísland mætir Norður-Írlandi í umspili Þjóðadeildarinnar í lok mánaðar.
Þorsteinn Halldórsson fór fögrum orðum um leikmennina þrjá er hann var spurður út í þær í viðtali og á blaðamannafundi fyrr í dag.
„Ég er ánægður með það sem ég hef séð til þeirra undanfarið. Þær eru að spila á jákvæðu nótunum og hafa verið að standa sig vel allar. Þær hafa allar verið að sýna miklar framfarir og framþróun á sínum leik. Þær hafa verið að taka fín skref í sinni spilamennsku,“ sagði landsliðsþjálfarinn.
María Catharina Ólafsdóttir er fædd árið 2003 og leikur með Linköping í sænsku úrvalsdeildinni.
„María hefur verið að spila vel út í Svíþjóð þó svo að liðið hennar hefur verið í smá brekku. Hún hefur sýnt stöðugleika og góða spilamennsku á þessu tímabili og var líka þokkalega góð á síðasta tímabili líka.“
Vigdís er fædd árið 2005 en hún var sótt til belgíska stórliðsins Anderlecht í upphafi árs eftir að hafa verið lykilmaður í liði Breiðabliks.
„Vigdís Lilja hefur líka verið í mikilli framför. Hefur bætt sig frá því að hún fór út til Belgíu og spilaði tímabilið þar á undan hér heima virkilega vel. Hún fór síðan til Belgíu, spilaði ágætlega framan af. Hún hefur sýnt góða leiki undanfarið og ég tók hana inn.“
Thelma Karen er yngsti leikmaður hópsins en hún er fædd árið 2008. Hún hefur skorað átta mörk í Bestu-deildinni í sumar með FH, þar af fjögur mörk í jafn mörgum leikjum eftir að deildin tvískiptist.
Hún skoraði jafnframt bæði mörk FH í 2-3 tapi í úrslitaleik Mjólkurbikarsins gegn Breiðabliki.
„Sama gildir um Thelmu Kareni, hún hefur verið virkilega flott með FH. Áhugaverður leikmaður og ég vildi gefa henni tækifæri á að móta sig inn í umhverfinu og sjá hvar hún stæði þegar hún væri komin á þetta stig,“ sagði Þorsteinn að lokum á blaðamannafundi fyrr í dag.