Dembele til Englands - Ramsdale orðaður við Bayern - Alexander-Arnold ætlar að framlengja við Liverpool
   fös 02. júní 2023 08:25
Elvar Geir Magnússon
Haaland: Geri allt fyrir þrennuna
Haaland með Englandsmeistarabikarinn.
Haaland með Englandsmeistarabikarinn.
Mynd: Getty Images
Mynd:
Úrslitaleikur enska FA-bikarsins verður á morgun þegar Manchester City mætir Manchester United. Eftir rúma viku leikur City svo við Inter í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Ef þeir ljósbláu vinna báða leiki vinna þeir hina merkilegu þrennu en þeir unnu ensku úrvalsdeildina nýlega. Manchester United vann þrennuna 1999 og er eina enska liðið sem hefur náð þessari þrennu.

„Það yrði magnað að skrá okkur í sögubækurnar," segir Erling Haaland, markaskorari City. Félagið hefur aldrei unnið Meitaradeildina.

„Ég var keyptur hingað til að hjálpa liðinu að vinna Meistaradeildina. Við þurfum ekki að fela það. Það myndi skipta öllu máli að vinna þá keppni. Það er minn stærsti draumur og vonandi verður hann að veruleika."

„Þetta verður ekki auðvelt. Við eigum tvo úrslitaleiki gegn liðum sem gera allt sem þau geta til að eyðileggja fyrir okkur. Við þurfum að vera upp á okkar besta."

Haaland sló met yfir flest úrvalsdeildarmörk á einu tímabili og hefur alls skorað 52 mörk á tímabilinu. Hann hefur slegið fjölmörg met og fengið fjölda einstaklingsverðlauna. Hann er einn frægasti fótboltamaður samtímans.

„Það er jákvætt, það þýðir að ég hef gert eitthvað rétt. Líf mitt hefur auðvitað breyst, ég get ekki lifað venjulegu lífi lengur. Svona er þetta og ég get ekki kvartað. Ég reyni að njóta hverrar stundar. Ég er 1,96 metra hér og er með langt ljóst hár svo fólk sér mig hvert sem ég fer. Svona er bara líf mitt núna," segir Haaland.
Athugasemdir
banner
banner