Chelsea tilbúið að losa Mudryk - Zubimendi sér eftir því að hafa hafnað Liverpool
banner
   fös 02. júní 2023 16:00
Innkastið
„Jákvætt viðhorf Rúnars að skila sér inn í liðið“
Rúnar Páll Sigmundsson á hliðarlínunni í gær.
Rúnar Páll Sigmundsson á hliðarlínunni í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórður Gunnar Hafþórsson átti góðan leik.
Þórður Gunnar Hafþórsson átti góðan leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir erfiða byrjun á tímabilinu hefur Fylkir nú farið í gegnum fjóra leiki í röð án ósigurs. Í gær gerði liðið 3-3 jafntefli gegn KR en Þórður Gunnar Hafþórsson var að mati Fótbolta.net besti leikmaður Fylkis í leiknum.

„Þórður Gunnar var virkilega öflugur í leiknum og var að skapa usla í KR vörninni hvað eftir annað," segir Elvar Geir Magnússon í Innkastinu þar sem rætt var um leikinn.

„Hann, Benedikt Daríus og Óskar Borgþórsson eru alvöru rakettur sem eru fyrir aftan og í kringum Pétur Bjarnason. Þarna sé ég alvöru plan komið hjá Fylki, eitthvað sem maður sá ekki í fyrstu umferðunum. Það er gaman að horfa á þetta," segir Sæbjörn Steinke. „Í byrjun móts var ég að tala um að það vantaði kraft inn á miðjuna. Mér finnst Ragnar Bragi hafa komið með helling af því inn í liðið."

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Fylkis hefur ítrekað lýst því yfir í viðtölum að hann hafi tröllatrú á mannskapnum sem hann er með í höndunum, þrátt fyrir efasemdarraddir frá fjölmiðlum.

„Hrós á Rúnar Pál fyrir að ná að rétta skútuna við þrátt fyrir að lenda í hverju högginu á fætur öðru og missa lykilmenn út vegna meiðsla. Það er andi í þessu liði," segir Elvar.

„Maður horfir á þetta byrjunarlið í gær og það eru einhverjir 7-8 leikmenn sem eru uppaldir í Fylki. Gaman fyrir Árbæinga að sjá þetta. Rúnar var ekki að taka inn leikmenn fyrir tímabilið og sagðist sáttur með hópinn, hann er að gera frábæra hluti með þetta lið." segir Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson.

„Ég held að það jákvæða viðhorf sem Rúnar hefur gagnvart þessu liði út á við sé að skila sér, í viðtölum og svona. Hann hefur verið mjög jákvæður og ég held að það hjálpi inn í hópinn," segir Sæbjörn og Gummi bætir við:

„Hann hefur aldrei dottið í einhvern vælugír með þennan hóp. Leikmenn taka það klárlega með sér."
Innkastið - Lögregluvarðstjórinn og margt býr í þokunni
Athugasemdir
banner
banner
banner