Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 02. desember 2020 10:06
Elvar Geir Magnússon
Íslenska deildin í „ruslflokki" - Bara Eistland, Andorra og San Marínó sem eru neðar
Úr Evrópuleik Stjörnunnar og eistneska liðsins Nömme Kalju 2018.
Úr Evrópuleik Stjörnunnar og eistneska liðsins Nömme Kalju 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
UEFA hefur uppfært styrkleikalista sinn yfir evrópsk félagslið en lélegur árangur íslenskra félagsliða í Evrópukeppnum undanfarin ár gerir það að verkum að Ísland er í fjórða neðsta sæti listans.

Það má því segja að íslensk félagslið séu í „ruslflokki" meðal fótboltaliða Evrópu en þessi staða gerir það að verkum að frá og með tímabilinu 2022 mun Ísland aðeins fá þrjú Evrópusæti frá UEFA í stað fjögurra.

Ef mark er tekið á listanum má segja að aðeins þrjár deildir í Evrópu séu flokkaðar slakari en sú íslenska. Það eru Eistland, Andorra og San Marínó.

Ísland er í 52. sæti listans og hefur misst þjóðir eins og Gíbraltar og Færeyjar fyrir framan sig. Færeyingar eru í 47. sæti á listanum.

Þessi staða vekur áhyggjur í íslenskum fótbolta en nokkur umræða hefur verið um hvernig hægt sé að bregðast við. Ljóst er að það er engin ein töfralausn.

Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF, talaði um það í viðtali í september að taka þyrfti upp afreksmiðaðri stefnu í íslenskum fótbolta.

„Ég veit ekki hvernig þessi skoðun fer í samfélagið en það má ekki vera neitt afreksmiðað á Íslandi. Við erum að keppa við félög sem eru afreksmiðuð og eru í þessu til að ná árangri. Það eru lið sem eru í allt öðruvísi raunveruleika en við," sagði Birgir.

„Við þurfum bara að þora að taka þennan slag, gera afreksmiðaðri æfingar. Ég er ekki að tala um að banna einstaklingum að æfa heldur að ákveðinn hópur æfi eftir afreksstefnu og undir meiri pressu. Aðrir æfi í allt öðru umhverfi þar sem meiri áhersla er lögð á að hafa gaman."
Athugasemdir
banner
banner
banner