lau 03. apríl 2021 11:00
Brynjar Ingi Erluson
Rivaldo um Messi: Gæti hjálpað að fá Aguero
Rivaldo, fyrrum framherji Barcelona og brasilíska landsliðsins, segir að Sergio Aguero gæti verið lykillinn að því að halda Lionel Messi hjá félaginu.

Messi, sem er markahæsti leikmaðurinn í sögu Barcelona, verður samningslaus í sumar en ekki er talið líklegt að hann framlengi samning sinn við félagið.

Hann hefur verið orðaður við Inter Miami, Paris Saint-Germain og Manchester City en Rivaldo telur að það gæti hjálpað að fá Sergio Aguero frá City.

„Það að fá Aguero á frjálsri sölu í sumar gæti verið frábær díll fyrir Barcelona. Hann á í góðu sambandi við Lionel Messi og eftir að Barcelona missti Luis Suarez til Atlético þá myndi Aguero fara beint í byrjunarliðið," sagði Rivaldo.

„Koma hans til félagsins gæti líka hjálpað Joan Laporta, forseta Barcelona, að sannfæra Messi um að vera áfram," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner