Watkins orðaður við United - Bayern sýnir Díaz áhuga - Arsenal hefur rætt við Eze
   fös 03. júlí 2020 11:30
Elvar Geir Magnússon
Ási Arnars: Alvöru leikmaður með mikil gæði og mikla reynslu
Peter Zachan mætti á sína fyrstu æfingu hjá Fjölni í gær.
Peter Zachan mætti á sína fyrstu æfingu hjá Fjölni í gær.
Mynd: Fjölnir
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölnir styrkti sig á gluggadeginum með því að fá tvo erlenda leikmenn til sín. Um er að ræða ungverska varnarmanninn Peter Zachan og danska sóknarleikmanninn Christian Sivebæk.

Fjölnismenn hafa verið lengi í leit að styrkingu en ýmislegt gekk á í þeirri leit eins og Ásmundur Arnarsson, þjálfari liðsins, segir frá.

„Við vorum búnir að leita lengi. Fyrir áramót og fljótlega eftir áramót vorum við að leita að mögulegum styrkingum. Fyrir Covid frestunina vorum við að skoða leikmenn erlendis frá. Síðan kemur þetta ástand þar sem lítið er hægt að gera," segir Ásmundur.

„Eftir við fórum af stað þá vorum við mikið að leita á íslenska markaðnum. Hvað við gætum gert til að styrkja hópinn en ekkert af því sem við reyndum gekk upp. Þá var bara að skoða erlendan markað og við fundum tvo menn sem vonandi ná að styrkja hópinn. Miðað við okkar unga hóp þá koma þeir með heilmikla reynslu og vonandi gæði sem bæta hópinn og liðið."

Hjálpar okkur vonandi að skapa mörk
Sivebæk er 32 ára en hann kemur frá Viborg í dönsku B-deildinni. Í Grafarvoginum er mikil spenna fyrir þessum leikmanni en hann skoraði sjö mörk og lagði upp sex fyrir Viborg á þessari leiktíð.

„Hann gerbreytir meðalaldri liðsins. Hans saga segir að þarna sé alvöru leikmaður með mikil gæði og mikla reynslu. Hann getur leyst nokkrar stöður og hjálpar okkur vonandi fram á við, að búa til og skora mörk. Ferilskráin hans lítur vel út og vonandi getur hann nýst okkur vel," segir Ásmundur.

Zachan er 22 ára gamall hávaxinn varnarmaður en hann á leiki með U21 árs landsliði Ungverja. Zachan var síðast á mála hjá Paksi SE í úrvalsdeildinni í Ungverjalandi en hann á 30 leiki að baki í efstu deild þar í landi.

„Hann kom á fyrstu æfingu í gær og leit vel út. Virðist góður leikmaður en þetta á eftir að koma betur í ljós. Þegar hann byrjar að spila þá áttar maður sig betur á því hvernig hann passar inn í þetta."

Snýst um hvað þeir gera fyrir hópinn
Fjölnismenn eru með eitt stig að loknum þremur leikjum í Pepsi Max-deildinni. Ásmundur vonast til þess að koma þessara nýju leikmanna muni fá nýliðana upp á tærnar.

„Það er auðvitað stóra málið. Þetta snýst ekki bara um hvað einstaka leikmaður gerir og hvað hann gerir fyrir hópinn sjálfan. Vonandi hafa þeir þau áhrif að allir fara upp á tærnar. Þeir lyfta vonandi upp anda og tempói á æfingasvæðinu og í leikjum í framhaldinu," segir Ásmundur.

Fjölnir fær Fylki í heimsókn í Grafarvoginn á morgun en nýju leikmenn Grafarvogsliðsins eru báðir komnir með leikheimild fyrir leikinn.

„Þetta verður spennandi verkefni. Fylkir er með hörkulið, þetta er kröftugt lið og þetta verður áskorun fyrir okkur. Þetta er leikur þar sem mikið er undir hjá báðum liðum. Það er klárt að bæði lið ætla sér sigur. Ég býst við grimmum og erfiðum Fylkismönnum."

föstudagur 3. júlí
20:00 Valur-ÍA (Origo völlurinn)

laugardagur 4. júlí
14:00 Grótta-HK (Vivaldivöllurinn)
14:00 Fjölnir-Fylkir (Extra völlurinn)
17:00 KR-Víkingur R. (Meistaravellir)

sunnudagur 5. júlí
16:00 KA-Breiðablik (Greifavöllurinn)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner