þri 03. desember 2019 20:04
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þjálfarateymi KA klárt - Hallgrímur og Pétur aðstoðarþjálfarar
Halldór Hermann, Pétur Heiðar, Hallgrímur, Óli Stefán og Branislav.
Halldór Hermann, Pétur Heiðar, Hallgrímur, Óli Stefán og Branislav.
Mynd: KA
Knattspyrnudeild KA hefur gengið frá þjálfaramálum fyrir komandi tímabil í Pepsi-Max deildinni.

Óli Stefán Flóventsson verður auðvitað áfram aðalþjálfari, en honum til aðstoðar verða Hallgrímur Jónasson og Pétur Heiðar Kristjánsson.

Óli Stefán missti aðstoðarþjálfara sinn á miðju síðasta tímabili. Sveinn Þór Steingrímsson yfirgaf þá KA til að taka við Magna í Inkasso-deildinni. Halldór Jón Sigurðsson, Donni, kom inn í þjálfarateymið þá, en hann er núna fluttur til Svíþjóðar.

Hallgrímur er fyrrum landsliðsmaður og atvinnumaður sem hefur spilað með KA undanfarin tvö tímabil. Meiðsli voru að stríða honum nokkuð á síðasta tímabili. Hann mun halda áfram að spila ásamt því að vera aðstoðarþjálfari.

Pétur Heiðar var aðalþjálfari meistaraflokks á Dalvík 2015 og hefur þjálfað yngri flokka hjá KA undanfarin ár auk þess sem hann er fyrrum leikmaður liðsins.

Óli Stefán mun lára UEFA Pro þjálfaragráðuna í janúar, en hann hefur verið í því námi samhliða því að þjálfa KA liðið undanfarið ár.

Branislav Radakovic verður áfram markmannsþjálfari liðsins en hann kom inn fyrir síðasta tímabil og hefur verið mikil ánægja með hans störf. Þá verður Halldór Hermann Jónsson áfram styrktar- og sjúkraþjálfari liðsins

„Við berum miklar væntingar til þessara öflugu kappa og verður gaman að fylgjast með gangi mála á komandi sumri en KA náði sínum besta árangri frá árinu 2002 á nýliðnu sumri er liðið endaði í 5. sæti Pepsi Max deildarinnar," segir í tilkynningu frá KA.
Athugasemdir
banner
banner
banner