Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 04. febrúar 2023 20:14
Elvar Geir Magnússon
Ten Hag: Casemiro fór yfir strikið en miklu fleiri gerðu það
Casemiro tók Will Hughes hálstaki.
Casemiro tók Will Hughes hálstaki.
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Erik ten Hag, stjóri Manchester United, gagnrýndi dómgæsluna í dramatískum 2-1 sigri liðsins gegn Crystal Palace í dag.

United var 2-0 yfir þegar Casemiro fékk beint rautt spjald og eftir það var leikurinn æsispennandi. Palace náði hinsvegar aðeins að skora eitt mark og United fagnaði sigri.

Það sauð upp úr í leiknum og handalögmál urðu á milli manna. Casemiro fékk að líta rauða spjaldið fyrir að taka utan um háls Will Hughes.

„Casemiro fór yfir strikið, þú sást það," sagði Ten Hag í viðtali eftir leikinn.

„Ég er hinsvegar óánægður með óstöðugleikann í dómgæslunni, ekki bara í þessum leik heldur fleiri leikjum. Margir leikmenn fóru yfir strikið, þar á meðal nokkrir Crystal Palace leikmenn. VAR tók ekki á því. Fyrst Casemiro fékk rautt áttu fleiri að fá rautt."

Ten Hag gæti haft eitthvað til síns máls en á samfélagsmiðlum hafa birst myndir af því þegar Jordan Ayew, leikmaður Palace, slær Fred í andlitið.

„Ég er ánægður með sigurinn og liðsframmistöðuna. Leikmenn standa saman og vinna fyrir hvorn annan. Það sést í útkomunni. Markið sem Marcus Rashford skoraði var fullkomið liðsmark að mínu mati," segir Ten Hag en United vann þrettánda heimasigur sinn í röð og er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Liðið verður aftur í eldlínunni gegn Leeds á Old Trafford á miðvikudag en þar verður Casemiro í banni. Hann verður einnig í banni í útileiknum gegn Leeds fjórum dögum síðar, og í leik gegn Leicester 19. febrúar.

Sjáðu atvikið í nærmynd


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner