Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 04. desember 2022 15:00
Fótbolti.net
Pape spáir í England - Senegal
Pape Mamadou Faye.
Pape Mamadou Faye.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aliou Cisse, þjálfari Senegal.
Aliou Cisse, þjálfari Senegal.
Mynd: Getty Images
Marcus Rashford, sóknarmaður Englands.
Marcus Rashford, sóknarmaður Englands.
Mynd: Getty Images
Senegal og England eigast við í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í kvöld klukkan 19:00.

Sóknarmaðurinn Pape Mamadou Faye, sem er á rætur að rekja til Senegal, spáir sínum mönnum sigri. Hann er þessa stundina staddur í landinu og segir að mikið sé talað um þennan leik þar. Það er mikil eftirvænting í loftinu.

Pape Mamadou Faye:

Senegal 2 - 1 England
Stemningin hér í Senegal er mjög góð. Fólk er vel spennt. Ég spái 2-1 fyrir okkar menn í Senegal. Þetta verður hörkuleikur, alvöru leikur. Englendingar eru líklegri en trúin hér er gríðarlega mikil. Fólk er ekki hrætt við England. Maður heyrði það strax eftir leikinn gegn Ekvador hvað fólk var spennt að mæta Englandi. Það var það eina sem var talað um á götum úti og fólk er mjög spennt. Sumir ganga svo langt að segja 3-1 en mín spá er 2-1.

Ég held að Iliman Ndiaye, leikmaður Sheffield United, sé að fara að skora. Hann er X-faktorinn í þessu liði í fjarveru Sadio Mane. Ég spái að hann skori eitt og Ismaila Sarr skori líka. Ég held að Rashford skori fyrir England. Ég held að mínir menn taki þetta 2-1 þó flestir vilji meina að Englendingar séu líklegri.

Ég hef mikið verið að hugsa um það síðustu daga að þetta sé hægt, Ísland gerði þetta 2016. Af hverju ætti Senegal ekki að geta þetta líka? Þeir þurfa að eiga sinn besta dag en við höfum trú á sigri. Við klárum þetta og það verður dansað langt fram á nótt í Senegal. Sunnudagurinn verður nýi laugardagurinn hér. Ég er heppinn að vera hér á þessum tíma.

Fótbolti.net spáir - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson:

Senegal 0 - 0 England
Ég talaði um það fyrir mót að Senegal væri bjartasta von Afríku í þessu móti og ég stend enn við það, jafnvel þó svo að það hafi verið sagt áður en Mane meiddist. Ég held að Englendingar muni svolítið fara inn í skelina sína í þessum leik og það mun henta Senegal vel.

Þessi leikur verður frekar lokaður og endar hann markalaus. Þannig verður hann líka eftir framlengingu og því fer þetta í vítaspyrnukeppni. Þar er sagan ekki með Englandi og ég held að Edouard Mendy, markvörður Senegal, muni standa uppi sem hetjan.

Senegal kemur heiminum á óvart og slær England úr leik. Southgate fetar í fótspor Roy Hodgson og segir af sér í leikslok. Aliou Cisse, svalasti þjálfari mótsins, er gríðarlega fær þjálfari og ekki útiloka það að liðið hans fari í undanúrslit. Senegalar verða vel gíraðir í leik á móti Frökkum í 8-liða úrslitunum.
Athugasemdir
banner
banner
banner