„Þetta fór ekki eins og við ætluðum okkur,“ sagði Arnór Ingvi Traustason eftir 2-0 tap íslenska U21 árs landsliðsins gegn því sænska. Arnór Ingvi var fyrirliði íslenska liðsins allt þar til honum var skipt af velli.
„Við náðum illa að halda boltanum og vorum mikið í því að elta. Við vissum að Svíarnir væru góðir og þannig gekk það í dag. Þeir héldu boltanum mjög vel og því náðum við ekki að skapa neitt. Það var margt sem fór úrskeiðis og við þurfum að laga það fyrir næsta leik.“
„Það var heiður að fá að bera fyrirliðabandið og mjög gaman. En fyrirliði eða ekki fyrirliði. Það sem skiptir máli er að að standa sig fyrir U21 árs landsliðið.“
Arnór Ingvi hélt í víking að loknu síðasta tímabili hér heima og samdi við sænska liðið Norrköping til þriggja ára.
„Ég þekkti nokkra hérna. Thelin, framherjinn og markaskorarinn hjá þeim, er hjá Norrköping og Olsson fór til Arsenal frá Norrköping. Svo hef ég spilað á móti einhverjum þeirra. Ég er ekki enn farinn að tala sænskuna en ég skil og það kemur smám saman.“
„Ég er þarna úti ásamt kærustunni minni og það er mjög kósý. Þetta er lítil og þægileg borg sem við búum í. Klúbburinn er svo að fara mjög vel með mig, flottur klúbbur þannig ég er sáttur.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir






















