
Það eru stór tíðindi úr herbúðum kvennadeildar Aftureldingar sem var að krækja í varnarmanninn öfluga Toni Deion Pressley sem lék með Breiðabliki í sumar og þótti öflug í Bestu deildinni.
Toni, sem er fædd 1990, mun taka við starfi aðstoðarþjálfara hjá félaginu auk þess að ganga væntanlega beint inn í byrjunarlið Mosfellinga.
Toni gerir tveggja ára samning við Aftureldingu og mun taka við þjálfun 2. flokks kvenna.
Hún er hokin reynslu eftir að hafa spilað með Orlando Pride í efstu deild kvenna í Bandaríkjunum, þar sem hún var samherji Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur um tíma.
Auk þess að eiga marga leiki að baki fyrir hin ýmsu félög í efstu deild í Bandaríkjunum á hún marga landsleiki fyrir sterk yngri landslið Bandaríkjanna, en hún fékk aldrei tækifærið með A-landsliðinu.
Afturelding endaði í fimmta sæti Lengjudeildar kvenna í sumar og er Toni gríðarlega mikill liðsstyrkur fyrir næstu leiktíð.
Athugasemdir