Man Utd ætlar að bjóða Calvert-Lewin samning - Al Nassr á eftir Rodrygo - Chelsea fylgist með stöðu Nwaneri
   sun 06. júlí 2025 18:03
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Hallgrímur Mar afgreiddi KR í Laugardal
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR 1 - 2 KA
0-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('65)
0-2 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('69)
1-2 Aron Sigurðarson ('71)

Lestu um leikinn: KR 1 -  2 KA

KR og KA áttust við í eina leik dagsins í Bestu deildinni og fór hann rólega af stað. Í fyrri hálfleik héldu Vesturbæingar boltanum á meðan gestirnir frá Akureyri lágu aftur og beittu skyndisóknum.

KR-ingar juku sóknarþungan er tók að líða á fyrri hálfleikinn en tókst ekki að skapa sér gott færi. Þess í stað komust KA-menn í tvö dauðafæri á lokamínútunum.

Fyrst fékk Jakob Snær Árnason úrvalsfæri en skalli hans var laus og auðvelt fyrir Halldór Snær Georgsson að verja. Skömmu síðar fékk Hallgrímur Mar Steingrímsson boltann inn í vítateig en skot hans endaði rétt framhjá. Staðan var því markalaus í leikhlé.

Í síðari hálfleik fengu bæði lið fín færi áður en Hallgrímur Mar, eða Grímsi, sýndi hvers hann er megnugur. Hann gerði vel að fiska aukaspyrnu rétt fyrir utan teig eftir að hafa sýnt laglega takta. Grímsi tók spyrnuna sjálfur og skrúfaði boltann yfir vegginn og upp í samskeytin, þar sem Halldór Snær átti ekki möguleika að verja.

Það liðu ekki fimm mínútur þar til Grímsi var búinn að tvöfalda forystuna. Í þetta sinn skoraði hann snyrtilegt mark eftir frábæran undirbúning frá Ingimari Torbjörnssyni Stöle.

Aron Sigurðarson svaraði tveimur mínútum síðar fyrir KR-inga. Boltinn datt fyrir Aron eftir barning rétt utan teigs og smellti hann boltanum fast og lágt í vinstra hornið til að koma sínum mönnum aftur inn í leikinn. Hægt er að setja spurningarmerki við William Tönning markvörð KA þarna sem hefði mögulega átt að verja boltann.

KR reyndi að sækja sér jöfnunarmark á lokakaflanum en tókst ekki. Gabríel Hrannar Eyjólfsson og Jóhannes Kristinn Bjarnason áttu marktilraunir en Tönning gerði vel að verja frá þeim.

Lokatölur 1-2 fyrir KA sem rífur sig upp úr fallsæti með þessum sigri.

Það er aðeins eitt stig sem skilur á milli KR og KA á stöðutöflunni. KR er í áttunda sæti með 16 stig eftir 14 umferðir, einu stigi fyrir ofan KA.
Athugasemdir
banner
banner