
Andri Fannar Baldursson er í landsliðshóp Íslands sem mætir Úkraínu og Frakklandi í undankeppni HM. Andri á tíu landsleiki að baki en hann lék síðast með liðinu í vináttuleik gegn Hondúras í janúar í fyrra. Fótbolti.net ræddi við Andra á hóteli landsliðsins fyrr í dag.
„Það er geggjuð tilfinning (að vera kominn aftur í landsliðið), ég er ógeðslega glaður og mér líður vel.“
„Auðvitað var ég líka að spila stórt hlutverk í U21 árs landsliðinu, var fyrirliði þar og það var skemmtilegt verkefni. En auðvitað er alltaf endamarkmiðið að vera í A-landsliðinu og vera partur af því.“
Ánægjulegt símtal við Arnar Gunnlaugsson þegar hann lét þig vita að þú værir í hópnum?
„Klárlega, það var mjög góð tilfinning. Það er búið að ganga vel hjá mér í Tyrklandi og mér líður vel í líkamanum.“
Hvernig líst þér á komandi tvo leiki?
„Mjög vel, það er klárlega tækifæri að ná í góð úrslit hérna. Liðið er á góðu skriði og okkur líður vel. Það er mikið sjálfstraust í hópnum, þannig við stefnum á að ná í góð úrslit í báðum leikjunum.“
Það er uppselt á báða leikina.
„Það er geggjað að fá þjóðina aftur á bakvið landsliðið og styðja okkkur svona vel og mæta á völlinn. Það skiptir ótrúlega miklu máli, gefur okkur þetta auka sem við getum nýtt okkur til að eiga vinna þjóðir eins og Úkraínu og jafnvel Frakkland.“