banner
   mán 08. mars 2021 23:45
Victor Pálsson
Bjarni um tímann með Scott Ramsay: „Æfði í svörtum ruslapoka til að svitna meira"
Scott Ramsay.
Scott Ramsay.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Jó hér til hægri.
Bjarni Jó hér til hægri.
Mynd: VF-myndir: Pket
Knattspyrnuþjálfarinn Bjarni Jóhannsson var gestur í hlaðvarpsþættinum Draumaliðið í síðustu viku en þátturinn er afar vinsæll og er í umsjón Jóhanns Skúla Jónssonar.

Í þessum frábæra þætti fá gestir það verkefni að stilla upp bestu 11 leikmönnum sem þeir hafa unnið með á ferlinum.

Að þessu sinni fékk Jói Skúli þjálfara til að velja liðið en Bjarni hefur átt langan og farsælan þjálfaraferil hér heima og er í dag við stjórnvölin hjá Njarðvík.

Bjarni þjálfaði lið Grindavík tvisvar á sínum ferli eða 1992 og svo frá 2002 til 2003. Þar vann hann með leikmanninum geðþekka Scott Ramsay.

Ramsay lék með Grindavík frá 1998 til ársins 2002 og samdi svo aftur við félagið 2007 og lék þar til ársins 2015.

Skotinn lenti í ýmsu á ferlinum og var oft ásakaður um það að vera of þungur og í raun ekki í nægilega góðu standi fyrir knattspyrnumann.

Bjarni man vel eftir að hafa unnið með Ramsey sem er fæddur árið 1975 og skoraði alls 54 mörk í 347 leikjum hér heima.

„Það sem háði honum alltaf er að hann var alltof þungur og leyfði sér ýmislegt sem varð þess valdandi að holningin á honum... Þetta varð ekki nógu gott. Hann var að burðast með of mörg kíló," sagði Bjarni.

„Það voru alltaf ákveðin tímabil í Grindavík þar sem hann æfði í svörtum ruslapoka til að svitna meira og ná af sér kílóunum en hæfileikar hans sem knattspyrnumanns og augnayndið tæknilega séð var frábært. Hrikalega flottur gæi í þessu Grindavíkur-liði."

„Það var alltaf líf í kringum kallinn en hann var kannski svolítið æstur."


Athugasemdir
banner
banner