þri 08. júní 2021 23:44
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Annað smit í herbúðum Spánar - Tvær búbblur
Diego Llorente í leik með Leeds.
Diego Llorente í leik með Leeds.
Mynd: Getty Images
Spænska knattspyrnusambandið tilkynnti í kvöld að Diego Llorente hefði fengið jákvæða niðurstöðu úr Covid-19 prófi. Llorente var valinn í EM hóp Spánar en óvíst er með hans þátttöku hans í mótinu eftir þessa niðurstöðu.

Fyrr í vikunni greindist Sergio Busquets með veiruna og lék U21 landslið Spánar æfingaleik gegn Litháen í kvöld í stað A-liðsins vegna þess að Busquets smitaðist.

Hópurinn í heild er í einangrun eftir að Busquets smitaðist og er Llorente sá eini sem hefur greinst eftir að hópurinn var allur prófaður í morgun. Möguleiki er hins vegar á því að fleiri séu smitaðir og óvissa um hvað gerist í framhaldinu.

Llorente, sem er miðvörður Leeds á Englandi, mun yfirgefa herbúðir spænska liðsins í kvöld til að koma í veg fyrir frekari smit.

Spænski hópurinn er í tveimur búbblum, þeir sem valdir voru í lokahópinn eru í búbblu og svo eru örfáir leikmenn í sérbúbblu ef þarf að kalla leikmenn inn í hópinn vegna meiðsla eða smita.

Sex leikmenn eru í þessari sérbúbblu; Rodrigo Moreno, Pablo Fornals, Carlos Soler, Brais Mendez, Raul Albiol og Kepa Arrizabalaga.

Fyrsti leikur Spánar á EM er gegn Svíþjóð næsta mánudagskvöld.
Athugasemdir
banner
banner