sun 08. desember 2019 09:24
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Bjarni Ólafur: Hélt alltaf að ég myndi enda ferilinn í Val
Bjarni skrifar undir samning við ÍBV.
Bjarni skrifar undir samning við ÍBV.
Mynd: ÍBV
Hann bjóst við að enda ferilinn í Val. Það gerist ekki.
Hann bjóst við að enda ferilinn í Val. Það gerist ekki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni var búinn að ákveða að hætta fyrir síðasta tímabil. Hann ákvað á endanum að taka slaginn með Valsmönnum.
Bjarni var búinn að ákveða að hætta fyrir síðasta tímabil. Hann ákvað á endanum að taka slaginn með Valsmönnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV ætlar ekki að stoppa lengi í Inkasso-deildinni.
ÍBV ætlar ekki að stoppa lengi í Inkasso-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn þaulreyndi Bjarni Ólafur Eiríksson skrifaði undir samning við ÍBV undir lok nóvembermánaðar.

Bjarni Ólafur, sem er 37 ára, hefur leikið með Val frá 2013. Hann var stór hluti af Íslandsmeistaraliðunum 2017 og 2018. Hann varð einnig Íslandsmeistari með Val 2007, og bikarmeistari 2005, 2015 og 2016. Hann kom við sögu í 18 leikjum í Pepsi Max-deildinni á síðustu leiktíð.

Bjarni á að baki 21 A-landsleiki. Hann lék þá í atvinnumennsku frá 2005 til 2007 með Silkeborg í Danmörku og frá 2010 til 2012 með Stabæk í Noregi.

Hann heyrði ekki í Val eftir síðustu leiktíð og ákvað því að skrifa undir hjá ÍBV.

„Aðalástæðan fyrir því að mig langar að taka annað tímabil er löngun í það að æfa og spila fótbolta. Ég hélt alltaf að ég myndi enda ferilinn í Val, en það gerist ekki," sagði Bjarni Ólafur í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær. „Vonandi verður þetta bara skemmtilegt og gott tímabil í ÍBV."

„Ég var búinn að tilkynna stjórninni hjá Val á miðju síðasta tímabili að mig langaði að taka annað tímabil. Þeir vissu hug minn varðandi það. Svo kláraðist tímabilið, einhver tími leið, og svo kom ÍBV inn í myndina. Þá langaði mig að kýla á það."

„Ég hefði viljað halda áfram í Val, en það kom í rauninni ekki til. Ég var ekki búinn að heyra frá félaginu þegar ÍBV kom inn í myndina. Að geta prófa að búa úti á landi og að halda áfram að spila fótbolta gerði þá ákvörðun - kannski ekki auðvelda - en auðveldari. Mér finnst ég vera að fara í spennandi umhverfi."

Hann segist alls ekki skilja ósáttur við Valsmenn. „Ég skil mjög sáttur við Val. Það er allt í góðu. Ég vona innilega að Valur nái að vinna þennan titil núna og réttlæta þetta hörmungartímabil, svo við tölum hreina íslensku."

Valur hafnaði í sjötta sæti Pepsi Max-deildarinnar síðasta sumar, eftir að hafa unnið deildina tímabil tvö þar á undan. Á meðan féll ÍBV úr deildinni og mun leika í Inkasso-deildinni á næsta tímabili.

Var búinn að ákveða að hætta fyrir síðasta tímabil
Fyrir síðasta tímabil sagði Bjarni Ólafur að hann væri mjög líklega hættur í fótbolta. Hann ákvað svo að taka slaginn með Val og naut tímabilsins mjög, þrátt fyrir að gengi Vals hefði ekki verið gott.

„Ég var búinn að ákveða að hætta fyrir síðasta tímabil, og var kominn með ansi mikinn leið á fótbolta þá," sagði varnarmaðurinn.

„Eins ótrúlegt og það kann að heyrast þá fannst mér skemmtilegra síðasta sumar en tímabilið þar á undan. Það er erfitt að útskýra það, mér fannst skemmtilegra að koma á æfingar og skemmtilegra að spila. Þegar líða fór á seinni hlutann á tímabilinu fann ég það að mér langaði að taka eitt tímabil í viðbót."

Bjarni mun flyta til Vestmannaeyja með fjölskyldu sinni.

„Þetta er dálítið skrýtið að maður á þessum aldri ákveði þetta, en okkur hefur langað að prófa að búa úti á landi í svolítinn tíma. Það eru forréttindi að fá að samtvinna þetta saman, að prófa að búa úti á landi og fyrir mig að spila fótbolta."

„Við ætlum öll flytja. Hversu lengi það verður, það verður bara að koma í ljós - ég er með samning út tímabilið. Við ætlum að gera þetta almennilega."

Á að stoppa stutt í Inkasso
ÍBV mun mæta með sterkt lið til leiks í Inkasso-deildinni og verður væntanlega ofarlega í öllum spám fyrir tímabilið.

„Mér finnst á samtölum mínum við bæði Helga (Sigurðsson, þjálfara ÍBV) og þá sem koma að liðinu að það eigi að stoppa stutt í Inkasso," segir Bjarni Ólafur og bætir við: „Það er áskorun fyrir mig að koma þangað og ná markmiðum sínum."

Bjarni er að upplagi vinstri bakvörður en hann kemur til með að fara í nýtt hlutverk í Vestmannaeyjum.

„Ég held að Helgi sjái mig sem hafsent, en ég hef ekki farið langt í þeim umræðum. Mér skilst að ég eigi að spila meira fyrir miðju næsta sumar. Það verður gaman að prófa að spila hafsent."

„Maður hefur fylgst ágætlega með Inkasso-deildinni, en það er orðið ansi langt síðan ég spilaði í henni, árið 2004. Ég held að hún sé búin að breytast töluvert síðan þá. Ég held að það sé ekkert launungarmál að þetta sé þokkalega sterk deild og það þarf mikið til að komast upp úr henni."

Viðtalið við Bjarna Ólaf úr útvarpsþættinum í gær má hlusta á í heild sinni hér að neðan.
Íslenski boltinn - Lenging mótsins og viðtal við Bjarna Ólaf
Athugasemdir
banner
banner
banner