Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   þri 09. mars 2021 15:07
Magnús Már Einarsson
Brynjólfur í Kristiansund (Staðfest)
Brynjólfur Andersen Willumsson
Brynjólfur Andersen Willumsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Norska félagið Kristiansund hefur keypt sóknarmanninn Brynjólf Andersen Willumsson í sínar raðir frá Breiðabliki.

Hinn tvítugi Brynjólfur skrifaði undir tæplega þriggja og hálfs árs samning við Kristiansund en fleiri erlend félög höfðu sýnt honum áhuga.

„Hann var eftirsóttur þar sem hann er einn af okkar mest spennandi framherjum," sagði Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Brynjólfs.

Brynjólfur er uppalinn hjá Breiðabliki en hann hefur spilað 51 leik og skorað 10 mörk fyrir liðið á ferlinum í Pepsi Max-deildinni og Mjólkurbikarnum.

Kristiansund endaði í 5. sæti í norsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Á heimasíðu félagsins kemur fram að Brynjólfur hafi verið undir smásjánni síðan í desember.

Amah Pellegrino, framherji Kristiansund, varð í fyrra næstmarkahæstur í norsku deildinni með 25 mörk en hann fór í vetur til Damak í Sádi-Arabíu. Brynjólfur á að hjálpa til við að fylla skarð hans í sóknarleiknum.

„Bryjólfur er leikmaður sem á mikla möguleika á að verða leikmaður sem áhorfendur elska," sagði Terje Wiik íþróttastjóri Kristiansund.

Brynjólfur mun fara til Noregs eftir EM U21 landsliða sem fer fram í Ungverjalandi síðar í þessum mánuði. Þangað til æfir hann með Breiðabliki.
Athugasemdir
banner
banner
banner