Það eru fregnir úr herbúðum Úlfanna þar sem kantmaðurinn Chiquinho hefur verið seldur til FC Alverca, félag í eigu Vinícius Júnior, í Portúgal.
Alverca endaði í öðru sæti næstefstu deildar í Portúgal á síðustu leiktíð og tryggði sér þannig þátttökurétt í efstu deild. Chiquinho fær því tækifæri til að reyna fyrir sér í efstu deild í Portúgal.
Kaupverðið fyrir Chiquinho er óuppgefið en mögulegt er að hann hafi skipt yfir á frjálsri sölu, en Úlfarnir halda um 40 til 50% af endursöluvirði leikmannsins.
Chiquinho er 25 ára gamall og kom við sögu í níu leikjum á dvöl sinni hjá Wolves, sem borgaði um 3 milljónir punda til að kaupa hann úr röðum Estoril í janúar 2022.
Úlfarnir eru þá búnir að senda Nasser Djiga til Skotlands í eitt ár, þar sem hann mun leika fyrir stórveldið Rangers á lánssamningi.
Djiga er 22 ára miðvörður sem leikur með spennandi landsliði Búrkína Fasó. Hann var keyptur til Wolves í síðasta vetrarglugga og kom við sögu í sex leikjum.
Wolves borgaði rúmlega 10 milljónir punda til að kaupa Djiga frá Rauðu stjörnunni í Belgrad í vetur.
Athugasemdir