Leikmenn Chelsea hafa notað persónulegar Instagram-síður sínar til að deila hlekkjum á miðasölu á HM félagsliða til að reyna að laða að fleiri áhorfendur.
Chelsea mætir Fluminense í undanúrslitaleik sem fer fram á MetLife-leikvanginum nærri New York í kvöld. Leikvangurinn, sem rúmar 82.500 manns, hefur einkennst af tómum sætum í keppninni og verð á leikinn hefur verið lækkað vegna lítils áhuga.
Leikmenn eins og Robert Sanchez, Nicolás Jackson, Enzo Fernandez og Moisés Caicedo hafa deilt hlekkjum á miðasölusíðu FIFA. Enskir fjölmiðlar telja líklegt að þeir hafi verið beðnir um þetta.
Áhuginn á þessari nýju útgáfu af HM félagsliða hefur verið takmarkaður og sjónvarpsáhorf á keppnina meðal Evrópubúa verið langt undir væntingum.
Chelsea hefur nú þegar aflað sér yfir 61 milljón punda með frammistöðu sinni í keppninni, sem nægði til að fjármagna kaup á Joao Pedro. Hann lék sinn fyrsta leik í sigri í gegn Palmeiras í 8-liða úrslitum og mun líklega spila aftur í undanúrslitunum í kvöld.
Chelsea verður hins vegar án Liam Delap og Levi Colwill sem eru í leikbanni, auk þess sem Romeo Lavia er meiddur.
Sigurvegarar leiksins í kvöld munu mæta annaðhvort PSG eða Real Madrid í úrslitaleiknum á sunnudag en hinn undanúrslitaleikurinn verður á morgun.
Athugasemdir