Rodrygo, leikmaður Real Madrid á Spáni, hefur engan áhuga á því að fara til Sádi-Arabíu, en það kemur aðeins til greina að spila í Evrópu á komandi tímabili.
Brasilíumaðurinn er líklega á förum frá Real Madrid í sumar og mörg félög búin að setja sig í samband við þennan frábæra sóknarmann.
Stærstu miðlar Englands segja Arsenal, Liverpool og Manchester City öll hafa áhuga á honum, en síðustu daga hefur hann verið sterklega orðaður við félög í Sádi-Arabíu.
Greint var frá því að Al-Nassr væri að reyna sannfæra Rodrygo um að koma, en það hefur ekki gengið neitt sérlega vel.
Fabrizio Romano segir orðróm um að Rodrygo gæti verið á leið þangað ekki sannan. Brassinn vill halda áfram að spila í Evrópu og er því enska úrvalsdeildin líklegasti áfangastaður hans.
Rodrygo er 24 ára gamall og getur spilað í öllum helstu sóknarstöðunum. Hann hefur komið að 119 mörkum í 270 leikjum með Madrídingum og unnið þrettán titla.
Athugasemdir