
Nadine Böhi, þriðji markvörður Sviss, hefur fengið mikið hrós í svissneskum fjölmiðlum eftir atvik í leik Íslands og Sviss á Evrópumótinu á dögunum.
Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður íslenska liðsins, var ekki vinsæl á meðal svissneskra stuðningsmanna á vellinum þar sem hún framkvæmdi löng innköst hjá Íslandi í leiknum. Tók hún yfirleitt frekar langan tíma í það þar sem rigning var á vellinum og hún þurfti því að þurrka af boltanum með handklæði.
Þegar leið á leikinn þá fengu svissnesku stuðningsmennirnir nóg og fóru að baula. Það fór líka í taugarnar á svissneska varamannabekknum hversu langan tíma innköstin tóku.
Á einum tímapunkti stóð Böhi upp og bað boltasækjara á vellinum að taka handklæði Sveindísar. Boltastúlkan gerði það og fór með handklæðið til Böhi.
Þetta hafði einhver áhrif en íslenska liðið var með fleiri handklæði sem voru svo sett upp þegar í ljós kom hvað hafði gerst. Böhi er samt sem áður hrósað í hástert og er mjög vinsæl í Sviss í dag.
Á vefsíðu Tages-Anzeiger er meðal annars sagt að þarna hafi Böhi sýnt að allir í hópnum séu mikilvægir, meðal annars þriðji markvörðurinn. Hún hafi séð tækifæri til að hjálpa liðinu og nýtt sér það.
Sviss er á leið í úrslitaleik við Finnland um sæti í 8-liða úrslitunum eftir sigurinn á Íslanid.
Athugasemdir