Valur fékk Breiðablik í heimsókn á Hlíðarenda fyrr í kvöld í toppslag Bestu-deildarinnar. Blikar komust yfir snemma leiks, en Valsmenn sneru taflinu við í síðari hálfleik og unnu 2-1 sigur. Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals mætti í viðtal að leik loknum.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 1 Breiðablik
„Það er mjög sterkt að vera 1-0 undir á móti Breiðablik og spila ekki góðan fyrri hálfleik. Breiðablik voru miklu betri í fyrri hálfleik, við vorum svolítið heppnir að fara inn í hálfleik 1-0. Við tókum svolítið til í hálfleik bæði fótboltalega séð og í hausnum."
„Í lokin var karakter, stuðningur úr stúkunni sem hljóp lífi í okkur og innkoma varamanna sem gefur okkur aukinn kraft og hjálpar okkur að vinna leikinn á endanum."
Valur er nú með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar.
„Það breytir ekki okkar nálgun á því hve fast við stöndum í lappirnar, hvernig við æfum og hvernig við leggjum á okkur vinnu. Það hefur aldrei breyst hjá okkur hvorki í byrjun tímabils og við vorum ekki jafn glaðir og undanfarnar vikur og mánuði."
„Þetta er lokaspretturinn í maraþoni, sem við erum búnir að vera í. Eins og ég segi alltaf við strákana þegar þú hleypur maraþon þá gefuru í undir lokin."
Viðtalið við Túfa má sjá í heild sinni í spilaranum fyrir ofan.
Athugasemdir